Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Gunnar Bragi stefnir á sæti hjá Framsókn

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi, segist setja stefnuna á að halda fyrsta sæti á framboðslista flokksins þrátt fyrir brotthvarf Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Hann segist þó hafa gríðarlegar áhyggjur af því hvernig Framsóknarflokkurinn sé að verða og velta fyrir sér hvort þetta sé þannig flokkur að hann vilji starfa í honum áfram.

Gunnar Bragi mætti á fjölmennan borgarafund á Ísafirði um hagsmunamál íbúa og sveitarfélaga á Vestfjörðum, þar sem Gísli Einarsson fréttamaður ræddi við hann. Skömmu fyrir þann fund fékk hann símtal frá Sigmundi með tíðindi sem komu honum á óvart. „Sigmundur hringir í mig klukkutíma áður en þetta kemur fram og segir mér þetta. Ég var staddur hjá góðum Framsóknarmanni hér fyrir vestan og við vorum að ræða málin. Auðvitað brá okkur töluvert. Það verður að segjast eins og er að það er gríðarleg eftirsjá að Sigmundi fyrir flokkinn.“

Gunnar Bragi hefur verið náinn samstarfsmaður og stuðningsmaður Sigmundar Davíðs. Aðspurður hvort hann fylgi honum í nýjan flokk svarar Gunnar Bragi: „Þetta var bara að koma fram núna. Ég er hins vegar að fara í kosningabaráttu hér í þessu kjördæmi fyrir Framsóknarflokkinn, 8. október munum við velja hver mun leiða listann í þessu kjördæmi. Ég mun núna setjast niður með mínu fólki fyrir norðan og fara yfir stöðuna eftir helgi. Ég hef ekkert annað í hyggju núna heldur en að bjóða mig fram og taka þennan slag um þetta fyrsta sæti. Ég tel að menn þekki ágætlega hér í kjördæminu hvað ég hef gert og hvernig ég vinn, samanborið við keppinautana.“

Gunnar Bragi segist ekkert geta sagt til um hvað gerist ef hann nær ekki því sæti sem hann stefnir á hjá Framsókn. „Þetta er svona spurning: Hvað ef sólin kemur ekki upp á morgun?“ segir Gunnar Bragi og heldur áfram: „Ég er bara að taka þessa ákvörðun núna að hella mér í þetta allt saman. Ég ræði við mitt fólk að sjálfsögðu. Ég hef hinsvegar miklar áhyggjur af því hvert þessi flokkur er kominn. Ég hef gríðarlegar áhyggjur af því. Ég velti dálítið fyrir mér hvort þetta sé þannig flokkur að maður vilji starfa í honum. Maður þarf svolítið að velta því fyrir sér. Ég hinsvegar vil gjarnan halda áfram og breyta honum þá til betri vegar.“