Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Gunnar Bragi og Bergþór snúa aftur í dag

24.01.2019 - 10:11
Mynd með færslu
 Mynd:
Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, þingmenn Miðflokksins, ætla að taka sæti sín á þingi í dag og ljúka þar með launalausu leyfi sem þeir tóku í kjölfar Klausturmálsins. Þeir segja framgöngu Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, í Klausturmálinu vera ástæðu þess að þeir snúi aftur.

Bergþór segir í samtali við fréttastofu að „menn verði að geta tekist á á sama vígvelli og boðað er til orrustunnar á“. Uppákoman á þriðjudag, þegar Alþingi samþykkti tillögu Steingríms um afbrigði við þingsköp, flýtti fyrir því að þeir Gunnar Bragi snúi aftur, segir Bergþór.

Spurður hvort hann hafi áhyggjur af því að fólkið sem hann lét ljót ummæli falla um á Klausturbar kunni að þykja nærvera hans óþægileg segir Bergþór það verða að koma í ljós. „Það verður auðvitað bara að reyna á það. Ég horfi til þess að eiga í góðu samstarfi við alla í öllum flokkum.“

Hann segist hafa rætt við Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, síðan upptökurnar af Klaustri voru gerðar opinberar en vildi ekki ræða hvað fór þeim á milli.

Varaþingmennirnir Una María Óskarsdóttir og Jón Þór Þorvaldsson hafa setið á þingi í stað þeirra Gunnars Braga og Bergþórs síðan í desember.

Gunnar Bragi greinir frá þessu í yfirlýsingu til fjölmiðla í dag. Hann segist hafa leitað ráðgjafar og notið mikils skilnings og stuðnings ættingja sinna, vina og félaga hvort sem er innan Miðflokksins eða utan hans.

„Stundum eru ákvarðanir nánast teknar fyrir mann. Fremur óvænt – en samt ekki – blasir svarið við því hvenær rétt sé að snúa til baka. Fyrstu dagar þingfunda á nýju ári, og framganga forseta Alþingis að undanförnu, er með þeim hætti að annað er óhjákvæmilegt en að nýta sér allan rétt til þess að vera inni á þeim leikvelli þar sem að mér er sótt og svara fyrir mig á þeim vettvangi en ekki utan hans. Þess vegna mæti ég á nýjan leik til starfa minna á Alþingi í dag.“

Miðflokksfólk ósátt við sérstaka forsætisnefnd

Fulltrúar Miðflokksins lýstu furðu sinni og andstöðu við niðurstöðu forsætisnefndar, sem hefur lýst sig vanhæfa í Klausturmálinu, að kjósa tvo nýja varaforseta þingsins tímabundið til þess að fjalla um Klausturmálið og koma því í farveg.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði það beinlínis ólöglegt að færa málið í þennan farveg með afbrigðum við þingsköp.

Tillaga Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, var samþykkt með miklum meirihluta á Alþingi á þriðjudag. Aðeins þingmenn Miðflokksins og tveir þingmenn utan flokka, sem einnig sátu á Klausturbarnum kvöldið örlagaríka, greiddu atkvæði gegn tillögunni.

Fréttin var uppfærð kl. 10:26 með viðtali við Bergþór Ólason og staðfestingu á því hann snúi einnig á þing 24. janúar.