Gunnar Bragi í leyfi frá þingstörfum

05.04.2019 - 18:10
Mynd með færslu
 Mynd: Viðar Hákon Gíslason - RÚV
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, er farinn í leyfi frá þingstörfum í ótilgreindan tíma. Hann sendi tilkynningu um leyfið til formanna og þingflokksmanna nokkurra flokka á Alþingi síðdegis í dag. Ekki sagði í tilkynningunni hve lengi hann verði í burtu né hvers vegna hann fari í leyfið. 

Gunnar Bragi svaraði ekki símtölum fréttastofu í dag. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, gerði það ekki heldur. Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, sagði í samtali við fréttastofu að hún viti lítið um málið annað en að ákvörðunin væri af persónulegum ástæðum.

Aðspurð játaði hún því að ákvörðun Gunnars Braga hafi átt sér stuttan aðdraganda. Hún sagðist eiga von á því að Bergþór Ólason taki við sem þingflokksformaður eftir helgi. Þingflokkurinn hafi ekki gert frekari ráðstafanir að svo komnu máli að öðru leyti en því að varamaður, Una María Óskarsdóttir, taki sæti fyrir Gunnar Braga.

Gunnar Bragi fór í leyfi frá þingstörfum fyrr í vetur, í nóvember, eftir að Klausturmálið kom upp og tók sæti aftur í lok janúar.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi