Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gumboro-veiki ekki náð útbreiðslu á Íslandi

06.11.2019 - 10:48
Mynd með færslu
 Mynd: jlastras - Wikimedia Commons
Bráðsmitandi Gumboro-veiki hefur ekki náð frekari útbreiðslu, eftir að hafa greinst í fyrsta sinn á Íslandi í Landsveit í sumar. Matvælastofnun hefur rannsakað útbreiðslu veirunnar og útrýmingaraðgerðir standa yfir.

Frá þessu er sagt í tilkynningu frá Matvælastofnun. Síðla sumars greindust tveir nýir sjúkdómar í kjúklingum á Rangarárbúinu á Hólavöllum í Landsveit. Þar var á ferð Gumboro-veiki og innlyksa lifrarbólga. Hvorugur sjúkdómurinn hafði greinst áður á Íslandi.

Menn geta ekki smitast

Gumboro-veiki er landlæg í flestum löndum þar sem alifuglarækt er stunduð. Sjúkdómurinn er bráðsmitandi fyrir alifugla en ekki fyrir menn eða önnur spendýr. Matvælastofnun segir frá því að menn geti ekki smitast af fuglunum eða við neyslu á kjúklingakjöti.

Sjúkdómurinn veldur miklu fjárhagslegu tjóni fyrir kjúklingabú, ef hann kemur upp. Ísland er eitt fárra landa í heiminum þar sem ekki hefur þurft að bólusetja fyrir Gumboro. Óljóst er hvernig smit barst á kjúklingabúið hér á landi.

Niðurstöður rannsóknar Matvælastofnunar eru sagðar mjög ánægjulegar, enda fundust engin smit á öllum búum Reykjagarðs hf. sem Rangárbúið er hluti af. Þó er ekki hægt að útiloka að veiran sé enn á til staðar á búinu og hefur verið gerð aðgerðaáætlun til þess að útrýma veirunni.