Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Gullleit hafin í Vopnafirði

09.08.2016 - 15:23
Mynd með færslu
 Mynd: Iceland Recources
Gullleit er hafin í Vopnafirði á vegum fyrirtækisins Iceland Resources. Fyrstu rannsóknadagarnir lofa góðu.

Fyrirtækið fékk rannsóknarleyfi til fimm ára frá Orkustofnun á um 598,5 ferkílómetra svæði í Vopnafirði. Þetta er fyrsta rannsóknarleyfið sem fyritækið fær en það hefur sótt um leyfi til rannsókna á átta stöðum á landinu. Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri Iceland Recources, segir þessa fyrstu rannsóknardaga í Vopnafirði lofa góðu.  

"Við erum með fjóra jarðfræðinga á svæðinu eins og er og þau eru að ganga yfir svæðið og gera jarðfræðikort af svæðinu og taka sýni þar sem hugsanlega gæti verið málma að finna og við erum nú þegar búin að finna nokkur svæði sem eru mjög álitleg hvað það varðar og svo sendum við bara sýni úr því til efnagreiningar,"segir Vilhjálmur  

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem leitað er að gulli í Vopnafirði. Á 10. áratugnum var leitað þar að gulli á árunum 1990-93 og svo aftur árið 1997 en að sögn Vilhjálms bentu þær rannsóknir til þess að gull væri á svæðinum.  

"Við erum að vissu leyti að fylgja þeim rannsóknum eftir og að vissu leyti að nota nýjar aðferðir. "

Snæfríður Ingadóttir