Gular viðvaranir og allt að fjórtán stiga frost

27.02.2020 - 06:38
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Veðurstofan hefur gefið út gular stormviðvaranir vegna austanhríðar á sunnan- og vestanverðu landinu í dag og fram á morgun. Veðrið lætur fyrst til sín taka á Suðurlandi upp úr hádegii og síðan á Suðausturlandi, höfuðborgarsvæðinu og við Faxaflóa um kvöldmatarleytið. Á morgun er svo útlit fyrir stórhríð á Miðhálendinu og ekkert ferðaveður á þeim slóðum.

Hvassviðri eða stormur verður á Suðurlandi, Suðausturlandi og hugsanlega við Faxaflóa. Vindur getur farið yfir 35 metra á sekúndu undir Eyjafjöllum og í Öræfum. Búast má við snjókomu eða skafrenningi á Reykjanes og Kjalarnesi með mjög lélegu skyggni á köflum. Hvasst og skafrenningur á Akranesi og í Borgarnesi en úrkomuminna. Ökumenn eru beðnir að sýna aukna aðgæslu. Á höfuðborgarsvæðinu getur vindur farið í allt að 30 metra á sekúndu í efri byggðum, á Seltjarnarnesi og við norðurströndina.

Rysjótt veður er í kortum næstu tveggja sólarhringa, víða allhvöss eða hvöss austanátt, stormur eða rok syðst í dag og á Suðausturlandi á morgun, segir veðurfræðingur Veðurstofunnar í pistli sínum. Það verður snjókoma með köflum eða skafrenningur á sunnanverðu landinu í dag, en úrkomulítið fyrir norðan. 

Snjókoma eða slydda á austanverðu landinu á morgun og fer að rigna við ströndina um kvöldið, en annars dálítil él og dregur úr frosti, segir í veðurpistlinum. „Á laugardag lægir loks og rofar víða til, en áfram slydda eða rigning með austurströndinni og hríð á Vestfjörðum. Gular veðurviðvaranir eru í gildi og því um að gera að fylgjast vel með veðurspám og færð áður lagt er af stað í ferðalög.“

Spáin gerir ráð fyrir norðaustlægri átt, víða átta til fimmtán metrar á sekúndu, og él norðan- og austanlands framan af nóttu og við suðvesturströndina, en annars úrkomulítið. Frost verður á bilinu tvö til fjórtán stig, kaldast í innsveitum norðaustantil.  Það verður vaxandi austlæg átt með morgninum, tíu til átján metrar á sekúndu, og snjókoma með köflum eða skafrenningur á S-verðu landinu seinni partinn og átján til 25 metrar á sekúndu syðst. Hægara, úrkomulítið og áfram kalt í veðri fyrir norðan.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi