Gul viðvörun í gildi um allt land

08.11.2019 - 16:11
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Gul viðvörun vegna austan hvassviðris eða storms er í gildi um allt land. Búist er við stormi um landið suðvestanvert, hvassast undir Eyjafjöllum, á Kjalarnesi og við Hafnarfjall. Vindhraðinn fer í 35 metra í hviðum.  Veður er slæmt í Landeyjahöfn og því mun Herjólfur sigla til Þorlákshafnar í dag, segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Einnig má búast við stormi eða roki suðvestantil á miðhálendinu. Lægir seint í nótt og í fyrramálið. Gengur í suðaustan storm eða jafnvel rok á sunnudag, fyrst suðvestantil.  

Veðurstofan bendir á að varasamt getur verið að vera á ferðinni, sérstaklega fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind, þar sem hálka getur verið á vegum. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum til að forðast tjón.

Vetrarfærð er um allt land, flughált í Húnavatnssýslum og þæfingur á Mjóafjarðarheiði og Dynjandisheiði.  

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi