Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Guðrún Eva og Bubbi fá menningarviðurkenningar RÚV

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Guðrún Eva og Bubbi fá menningarviðurkenningar RÚV

10.01.2020 - 17:53

Höfundar

Menningarviðurkenningar RÚV voru veittar við hátíðlega athöfn í Útvarpshúsinu í dag. Guðrún Eva Mínervudóttir hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins og Bubbi Morthens hlaut Krókinn, viðurkenningu Rásar 2, fyrir framúrskarandi tónlistarflutning á árinu.

Menningarviðurkenningar RÚV fyrir árið 2019 voru veittar við hátíðlega athöfn í Stúdíói A í Útvarpshúsinu við Efstaleiti í dag. Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og fleiri góðir gestir voru við athöfnina sem útvarpað var í beinni útsendingu á Rás 1 og streymt á rúv.is Veitt var viðurkenning úr Rithöfundasjóði og tilkynnt um styrki úr Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins og STEFs á árinu. Auk þess veitti Rás 2 Krókinn, verðlaun fyrir framúrskarandi lifandi flutning árið 2019 og tilkynnt var um valið á orði ársins 2019.

Guðrún Eva Mínervudóttir hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins fyrir ritstörf. Í rökstuðningi úthlutunarnefndar segir meðal annars: „Guðrún Eva er afkastamikill rithöfundur, hefur gefið út 13 bækur, ýmist skáldsögur, ljóð og ritgerðir, og auk þess nokkrar þýðingar. Guðrún Eva hefur áður hlotið íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Allt með kossi vekur, Menningarverðlaun DV fyrir Yosoy og á síðasta ári fékk hún Fjöruverðlaunin fyrir Ástin, Texas. Guðrún Eva hefur sjálf lýst sér sem heimspekilegum rithöfundi. Þó skáldsögurnar séu ólíkar sækja þær í keimlík þemu og leggja til atlögu við svipaðar grundvallarspurningar. Sérhver bók myndar ákveðið framhald þar sem hún hefur þróað áfram stílbrögð og formhugmyndir og að því leyti er heildarmynd á öllum hennar rithöfundarferli.“

Mynd: RÚV / RÚV
Guðrún Eva Mínervudóttir veitti viðurkenningunni viðtöku í Útvarpshúsinu.

Bubbi Morthens hlaut Krókinn 2019 – viðurkenningu Rásar 2, fyrir framúrskarandi tónlistarflutning á árinu.  Verðlaunin eru þakklætisvottur til alls þess tónlistarfólks sem Rásin hefur átt gott samstarf við.

Mynd: RÚV / RÚV
Bubbi gat ekki verið viðstaddur athöfnina en flutti orðsendingu á skjá.

Niðurstöður kosningar um orð ársins voru einnig kynntar. Orðið hamfarahlýnun hlaut flest atkvæði. Það var einnig orð ársins að mati Stofnunar Árna Magnússonar sem byggði valið á upplýsingum í textasöfnum sínum. Markmiðið með því að velja orð ársins er að draga fram þau orð sem einkenndu þjóðfélagsumræðuna á nýliðnu ári. Orðin þurfa að hafa verið áberandi eða endurspegla samfélagið á einn eða annan hátt. Þau orð sem þóttu standa upp úr 2019 voru orðin hamfarahlýnun, loftslagskvíði og pokasvæði. Stofnun Árna Magnússonar sótti orð ársins í textasöfn sem endurspegluðu umræðuna í fjölmiðlum og samfélaginu öllu.

Alls var 71 styrkur veittur úr sameinuðum Tónskáldsjóði Ríkisútvarpsins og STEFs árið 2019. Sjóðurinn hefur það markmið að stuðla að frumsköpun og útbreiðslu íslenskrar tónlistar. Sjóðurinn veitir höfundum fjárstuðning fyrir tónsmíði og heildstæð verk og er sérstaklega horft til fagþekkingar auk þess sem metnaðarfyllri og yfirgripsmeiri verkefni hljóta forgang.