Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Guðni Th.: Framfarir byggjast á fjölbreytni

01.01.2017 - 13:00
Mynd: RÚV / RÚV
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, kom víða við í fyrsta nýársávarpi sínu. Hann vitnaði í Margréti Þórhildi Danadrottningu, Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, og Braga Valdimar Skúlason, Baggalút. Hann rifjaði upp sögu af gömlum bekkjabróður sínum sem þurfti að dveljast meginhluta ársins á sjúkrastofnun eftir að hafa legið milli heims og helju á sjúkrahúsi og minnti á að bakgrunnur og ríkidæmi eigi ekki að skilja milli feigs og ófeigs í heilbrigðiskerfinu.

Guðni hóf nýársávarp sitt að þakka forverum sínum í starfi, Vigdísi Finnbogadóttur og Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrir hlýhug og góð ráð og öllum þeim sem studdu hann og hvöttu til dáða í framboði til forseta. „Forseti Íslands á að vera fulltrúi og málsvari allra Íslendinga, allra sem búa á þessu landi. Enginn er stærri en embættið sjálft.“

Hann minntist einnig á nýja heimasíðu embættisins sem opnuð var í dag og sagði að síðustu mánuði hefði hann fundið fyrir því hve mikla virðingu Íslendingar bæru fyrir forsetaembættinu. „Við Íslendingar höfum einmitt notið þess – og jafnvel stært okkur af því – að þjóðhöfðingi lýðveldisins geti gengið manna á meðal, þurfi ekki sífellt að vera á varðbergi.“

Forsetinn sagði að nýliðið ár hefði fært mörgum eymd, ógnir og ótta – stríðið í Sýrlandi þar sem saklaus börn og aðrir borgarar væru fórnarlömb mannvonsku og miskunarlauss valdatafls. „Á stjórnmálasviðinu urðu líka straumhvörf sem aukið hafa á óvissu. Er þá einkum átt við úrslit forsetakjörs í Bandaríkjunum og væntanlega úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu.“

Guðni rifjaði upp að í innsetningarræðu sinni hefði hann minnst á að íslenskt samfélag hefði lengi verið einsleitt. En þetta væri liðin tíð sem ekki kæmi aftur. „Framfarir um okkar daga byggjast á fjölbreytni; flæði hugmynda og fólks um víða veröld. Um leið verðum við þó ætíð að tryggja og vernda grunngildi okkar; réttarríki og velferðarsamfélag þar sem mannréttindi eru í hávegum höfð, jafnrétti kynjanna, trúfrelsi og ástfrelsi, málfrelsi og menningarfrelsi.“

Hann benti á að mögulega væri heillaræð að kynna fyrir þeim sem vildu setjast hér að þau þjóðareinkenni sem hafi hjálpað Íslendingum að komast af á Íslandi – það mætti draga saman í orðtakinu góða: „Þetta reddast.“ Hann sagði þau sjónarmið, sem sett hefðu verið fram í nýársávarpi Margrétar Þórhildar Danadrottningar fyrir um áratug, vera skynsamleg. Að enginn skyldi vænta þess að þeir sem flyttu til nýrra heimkynna vörpuðu fyrir róða allri sinni arfleifð – hinir nýju borgarar yrðu þó að virða lög og gildi síns nýja samfélags. 

Guðni nefndi einnig Kanada, heimaland forsetafrúarinnar, og hversu vel sambúð fólks af ólíkum uppruna sem talaði ýmis tungumál og aðhylltist mismunandi trúarbrögð hefði gengið. Hann vitnaði í Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sem sagði á fundi með borgarstjóra Lundúna að Kanadamenn hefðu sýnt hvernig samfélagið styrktist við það að fá nýja íbúa frá öllum heimsins hornum. 

Undir lok ávarpsins rifjaði Guðni upp sjúkrasögu gamals bekkjarbróður úr MR sem lá milli heims og helju eftir óvænt reiðarslag og þurfti að dveljast á sjúkrastofnun meginhluta ársins. Hann sagðist hafa orðið það á, þegar þeir tveir hittust, að spyrja þennan gamla skólafélaga hvort hann þyrfti núna lyftu til að komast á milli hæða í húsi sínu. „„Ég þarf enga fjandans lyftu,“ sagði hann hægt, með þunga í hverju orði, og glotti eins og Skarphéðinn forðum.“

Guðni sagði að líkt og í MR, þar sem skólafélagarnir komu hver úr sinni áttinni, hefði bakgrunnur ekki skipt sköpum þegar kom að heilbrigðiskerfinu þegar einn þeirra þurfti þjónustu þess til að leita sér lífs. „Ríkidæmi skildi ekki milli feigs og ófeigs.“ Íslendingar væru sammála um þessar meginstoðir – mennta-og heilbrigðiskerfið – og að þær stæðu undir nafni. „Sé þannig að verki staðið er minni hætta en ella á því að fólk festist í fátækt og forlagafjötrum. Um leið eiga allir að geta spreytt sig, skarað fram úr, efnast, gert vel við sig og sína en goldið sanngjarnan skerf til samfélagsþarfa.“

Hann varaði þó við því að aukin misskipting valdi sundrungu og spennu –mannkyni muni aldrei farnast vel ef eitt prósent jarðarbúa á eins mikinn auð og hin 99 prósentin til samans. „Ógn stafar af fjármagnsskipulagi sem örfáir stýra og tekur ekki mið af hagsmunum fjöldans.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV