Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Guðni með afgerandi forystu

24.06.2016 - 12:12
Mynd með færslu
 Mynd: Axel Sigurðarson - Guðni Th. Jóhannesson
Guðni Th. Jóhannesson er með 44,6% fylgi til embættis forseta Íslands samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup. Halla Tómasdóttir er í öðru sæti með 18,6%.

Könnunin var gerð fyrir RÚV dagana 20. - 24. júní. Könnunin var net- og símakönnun, úrtakið var 2901, 1651 svaraði eða 56,9%. Guðni Th. Jóhannesson er með mesta fylgið, eða 44,6%. Hann tapar hins vegar töluverðu fylgi frá síðasta þjóðarpúlsi, þegar hann var með fimmtíu og eins prósenta fylgi.

Næst kemur Halla Tómasdóttir, sem er með 18,6 prósenta fylgi. Halla bætir töluvert miklu fylgi við sig frá síðasta þjóðarpúlsi, þegar hún mældist með 12,5%. 

Davíð Oddsson er þriðji með rúmlega 16 prósenta fylgi. Davíð stendur í stað frá síðustu könnun. Andri Snær Magnason kemur svo fast á hæla Davíðs í fjórða sæti, með tæplega 16 prósenta fylgi. Andri Snær stendur nokkurn veginn í stað frá síðustu könnun. 

Ekki er marktækur munur á fylgi Höllu og Davíðs annars vegar og Davíðs og Andra Snæs hins vegar. Sturla Jónsson er fimmti með tveggja komma fimm prósenta fylgi. Aðrir mælast með minna fylgi. 89,1%, sem svöruðu könnuninni, tóku afstöðu. 4% sögðust ekki ætla að kjósa eða skila auðu og rétt tæplega sjö prósent neituðu að svara eða höfðu ekki gert upp hug sinn.

Elísabet Jökulsdóttir er með 1,1 prósent fylgi, Ástþór Magnússon er með 0,7 prósent fylgi, Guðrún Margrét Pálsdóttir er með 0,5 prósent fylgi og Hildur Þórðardóttir er með ekkert fylgi, eða 0,0 prósent.  

 

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Hjálmar Friðriksson
Fréttastofa RÚV