Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Guðni lýsir yfir framboði

05.05.2016 - 14:12
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Pétur Jónsson - RÚV
Guðni Th. Jóhannesson dósent í sagnfræði, lýsti formlega yfir framboði sínu til embættis forseta Íslands í Salnum í Kópavogi síðdegis. Hann boðaði til fundarins á sunnudag.

„Forseti á að vera í nánum tengslum við alla landsmenn,“ og ekki í liði með einum eða neinum, sagði Guðni.  

„Forseti hlýtur að láta sig varða endurskoðun stjórnarskrár. Í hana þarf að koma það ákvæði að tilskilinn hluti kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðis um umdeild mál. Beint lýðræði á ekki að felast í því að við þurfum að arka til Bessastaða með bænaskrá í annarri hendi og blys í hinni og biðja um að fá að kjósa um það sem okkur varðar.“ 

Guðni sagði að aðrar breytingar þurfi að ræða og leiða til lykta. „Ágreiningur er í raun aðalsmerki þróaðs samfélags. Við eigum að geta deilt, jafnvel harkalega, en virt leikreglur og komist að niðurstöðu. Svo er það líka þannig að stjórnarskrárbreytingar skipta engu máli ef valdhafar bregðast trausti og trúnaði fólksins. Við öll, almenningur í landinu, biðjum ekki um mikið. Við biðjum ekki um fullkomið samfélag, fullkomna valdhafa. Við biðjum einfaldlega um að ráðamenn í samfélaginu séu heiðarlegir, standi við orð sín og hafi ekkert að fela.“

Guðni sagðist í lok fundar hlakka til að spjalla við fólk um land allt. 

 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV