Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Guðni hitti Pútín í Arkhangelsk

30.03.2017 - 18:11
Mynd: EPA / REUTERS POOL
Mikilvægi ábyrgrar samvinnu í nýtingu og vernd á auðlindum hafsins var meðal þess sem Guðni Th. Jóhannesson ræddi við Vladimír Pútín Rússlandsforseta á fundi þeirra fyrr í dag. Viðskiptaþvinganir í kjölfar aðgerða Rússa á Krímskaga bar einnig á góma, en fundinn sátu jafnframt utanríkisráðherrar ríkjanna tveggja.

Guðni er í norðlægu hafnarborginni Arkhangelsk á ráðstefnu um málefni Norðurslóða. Hann lagði mesta áherslu á málefni hafsins, aðgerðir gegn mengun og súrnun sjávar og fiskveiðar. „Svo minntist ég líka á nauðsyn þess að öll uppbygging á norðurslóðum taki mið af hagsmunum og óskum íbúanna sem þar búa.

Að ráðstefnu lokinni ræddust Guðni og Vladimír Pútín Rússlandsforseti við. „Pútín er auðvitað þaulreyndur í þessum efnum og rakti samskipti ríkjanna að fornu og nýju á sviði menningar, menntunar og viðskipta. Auðvitað kom að því að talið barst að viðskiptabanni og þvingunum. Það var ekkert horft framhjá því. Með á fundinum var utanríkisráðherra sem lýsti fyrir Íslands hönd sjónarmiðum ríkisstjórnar og hvers vegna mál þróuðust með þeim hætti sem raun bar vitni.“

Guðni segir að málefni Úkraínu hafi ekki verið rædd beinlínis á fundinum nema hvað atburðarásin í Úkraínu og innlimum Krímskaga eru ástæða þess að viðskiptaþvingunum er beint gegn Rússum.

Mynd: EPA / REUTERS POOL

Forsetarnir gegna ólíkum hlutverkum. Pútín er æðsti maður ríkisstjórnarinnar meðan Guðni er þjóðhöfðingi. Ýmis málefni falla því á verksvið ríkisstjornar en ekki hans. „Vissulega gat ég leyft mér að nefna líka það sem ég benti á núna áðan, mikilvægi þess að við horfum ábyrgum augum til framtíðar og hugum að auðlindum hafsins: hvernig þeim skuli skipt og ekki síður hvernig við verndum þá auðlind, spornum gegn mengun hafsins, súrnun sjávar og þar fram eftir götunum. Það er engin flokks- eða ríkisstjórnarpólitík í því. Það eru einfaldlega hagsmunir okkar allra á Norðurslóðum og reyndar í heiminum öllum.

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV