Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Guðni: Fordæmalaust að synja ósk um þingrof

05.04.2016 - 13:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðni Th. Jóhannesson, dósent í sagnfræði, segir það fordæmalaust að forsetinn synji formlegri ósk forsætisráðherra um þingrof. Guðni segir jafnframt, með þeim fyrirvara um að ekki hafi allt komið fram, að forsætisráðherra skuli leita til forsetans með þingrofs-tillögu án þess að ræða slíkt við formann hins stjórnmálaflokksins og ekki heldur við eigin þingflokk.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, fór á fund Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta, eftir að hafa átt fund með Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, í fyrsta sinn eftir umfjöllun Kastljóss um Panamaskjölin.

Guðni segir það hafa verið rétt af forsetanum að fallast ekki á þingrofsbeiðni forsætisráðherra, því hann hafi ekki verið búinn að ræða við formann hins stjórnmálaflokksins í ríkisstjórn. 

Mynd: RÚV / RÚV

Á fundi með blaðamönnum upplýsti Ólafur Ragnar síðan að Sigmundur Davíð hefði óskað eftir því við sig að fá að rjúfa þing og boða til kosninga. Ólafur Ragnar sagðist ekki geta fallist á þessa beiðni án þess að ræða slíkt við formann Sjálfstæðisflokksins.

Guðni Th. Jóhannsson, sem er á leið í beina útsendingu í sjónvarpinu, sagði við ruv.is að menn skyldu ekki örvænta því það hefði oft áður allt leikið á reiðiskjálfi. Menn skyldu gæta sín og huga vandlega að því hvaða afleiðingar ákvarðanir þeirra hefðu. „Og mér sýnist einmitt forsetinn hafa gert það.“

Guðni sagði enn fremur að honum sýndist ekki að í gildi væri einhvers konar samkomulag stjórnarflokkanna um að þing yrði ekki rofið nema báðir stjórnarflokkarnir væru því sammála. „Menn verða að spyrja Bjarna að því hvort það hafi verið rætt.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV