Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Guðni boðar formennina á sinn fund

01.12.2016 - 18:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur boðað forystumenn allra þeirra flokka sem sæti eiga á Alþingi á sinn fund á morgun. Fundirnir verða ekki á Bessastöðum heldur á skrifstofu forsetans við Sóleyjargötu. Bjarni Benediktsson mætir fyrstur klukkan tíu og síðan fylgja hinir í kjölfarið. Ráðgert er að fundirnir standi í hálfa klukkustund. Ekki kemur fram hvort Guðni ætli að ræða við fjölmiðla að fundarhöldunum loknum.

Þetta er í annað sinn sem Guðni boðar alla formennina á sinn fund eftir kosningarnar í október.  Forsetinn hefur sett nokkra pressu á stjórnmálaleiðtogana eftir að uppúr slitnaði í tveimur formlegum stjórnarmyndunarviðræðum.

Á blaðamannafundi, þar sem hann tilkynnti að hann myndi ekki fela neinum stjórnarmyndunarumboðið, sagði Guðni í yfirlýsingu til fjölmiðla að hann vænti þess að um síðustu helgi eða byrjun þessarar viku „í síðasta lagi hafi línur skýrst og unnt verði að ákveða næstu skref í þessum stjórnarmyndunarviðræðum.“ 

Eftir að Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson, formenn VG og Sjálfstæðisflokksins, greindu honum frá óformlegum viðræðum sín á milli sendi Guðni frá sér aðra yfirlýsingu þar sem hann sagðist fylgjast náið með þróun þessara mála. Og vænti þess að komist yrði að niðurstöðu um myndun nýrrar ríkisstjórnar innan skamms.

Í dag var svo greint frá því að Katrín og Bjarni myndu ekki hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður en að Viðreisn, Björt framtíð, Samfylking og Píratar hefðu áhuga á að endurvekja stjórnarmyndunarviðræður með VG. Katrín sagði í samtali við fréttastofu að það hefði slitnað upp úr þeim viðræðum þar sem Viðreisn hefði ekki haft sannfæringu fyrir þeim og hún vissi ekki hvaða forsendur hefðu breyst.

Þingmenn og makar þeirra hvíla þó væntanlega formlegar og óformlegar stjórnarmyndunarviðræður í kvöld þegar þeir snæða kvöldverð í boði forsetans í tilefni af fullveldisdeginum.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV