Guðmundur Ingi verður varaformaður VG

19.10.2019 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Formaður og varaformaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs verða sjálfkjörin á landsfundi VG sem nú stendur. Enginn bauð sig fram á móti Katrínu Jakobsdóttur formanni. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra verður næsti varaformaður VG.

Edward Huijbens hættir sem varaformaður. Elín Oddný Sigurðardóttir ritari flokksins sækist ekki eftir endurkjöri. Núverandi gjaldkeri flokksins, Una Hildardóttir, býður sig fram í embætti ritara. Það gerir líka Ingibjörg Þórðardóttir stjórnarmaður. Þeir sem bjóða sig fram í embætti gjaldkera eru Ragnar Auðun Árnason og Rúnar Gíslason.

Fimmtán manns eru í framboði sem meðstjórnendur. Sjö verða kjörnir. Kosið verður rafrænt í fyrsta sinn á landsfundi VG. Kosning hefst rétt fyrir klukkan þrjú. 
 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi