Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Guðmundur í Brimi ætlar að kæra brottkast

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Brottkast á fiski, sem myndað var um borð í Kleifaberginu í fyrra verður kært til lögreglu á morgun. Þetta segir Guðmundur Kristjánsson, útgerðarmaður í Brimi, sem gerir út Kleifabergið.

Myndband sem sýnir brottkastið var birt í fréttum RÚV í kvöld. Guðmundur segir að á myndunum sjáist að fínum fiski sé kastað, slægðum og hausuðum þorski. Fiskurinn sé eign útgerðarinnar og hún hendi ekki fiski. Guðmundur lét hafa eftir sér fyrr í dag, áður en myndbandið kom fram, að dregið hafi úr brottkasti á undanförnum árum. Þá segist hann aldrei hafa gefið fyrirskipun um brottkast. 

Fjallað var um mikið brottkast á árunum 2008 til 2011 um borð í Kleifaberginu í fréttaskýringaþættinum Kveik í gærkvöld. Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu eru brotinn enn til rannsóknar. Í þættinum var einnig fjallað um hlut Fiskistofu og rætt við tugi núverandi og fyrrverandi starfsmanna sem lýstu meingölluðu regluverki, samdrætti í eftirliti og skorti á stuðningi stjórnvalda. Þetta þrennt hefði veikt stofnunina svo mikið að hún geti ekki lengur sinnt hlutverki sínu.