Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Guðlaugur Þór: Þetta eru góðar fréttir

18.03.2019 - 20:56
Iceland's Foreign Affairs Minister Gudlaugur Thor Thordarson addresses the 73rd session of the United Nations General Assembly Friday, Sept. 28, 2018, at the United Nations headquarters. (AP Photo/Frank Franklin II)
 Mynd: AP
Utanríkisráðherra fagnar því að Bretar og Íslendingar hafi komist að samkomulagi sem tryggja óbreytt viðskipti milli landanna ef Brexit verður án samnings. Hann segir samskipti Bretlands og Íslands hafa verið mjög góð og nú liggi fyrir að móta framtíðarfyrirkomulag í samskiptum landanna tveggja.

Samninganefnd frá Bretlandi náði í kvöld samkomulagi við Ísland og Noreg sem tryggir að viðskipti milli landanna verða óbreytt ef Bretland gengur út úr Evrópusambandinu án samkomulags. Bretar hafa þegar náð sambærilegu samkomulagi við Lichtenstein og Sviss.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir þetta góðar fréttir. 

„Við höfum verið að búa okkur undir mismunandi sviðsmyndir. Það er nokkuð síðan við gengum frá samningum ef þeir fara út með samningi. Það sem við vorum búin að klára ef þeir fara út án samnings voru loftferðarmálin og réttindi borgaranna. En vöruviðskiptin voru eftir og nú er búið að ljúka því og við skrifum undir það á næstunni.” 

Er samningaferlinu okkar við Bretland þar með lokið? 

„Varðandi skammtímasamningana. Það er sama hvernig þeir fara út þá eiga okkar hagsmunum að vera jafn vel borgið eins og mögulegt er, en við ráðum ekki hver niðurstaðan verður á milli Breta og ESB, sem gæti haft áhrif á okkur. Síðan er næsta verkefni sem er framtíðarfyrirkomulag í samskiptum Bretlands og Íslands. Þetta er til bráðabirgða en við höfum verið mjög ánægð með samskiptin við Bretana og eigum ekki von á öðru en að það fáist góð niðurstaða hvað varðar framtíðarsamskipti þjóðanna.”