Guðlaugur Þór harðorður í ræðustól mannréttindaráðsins

25.02.2020 - 13:35
Mynd með færslu
 Mynd: Mynd: Utanríkisráðuneytið
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hélt ræðu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf í dag. Þar gagnrýndi hann að Venesúela fái að sitja í ráðinu þrátt fyrir mannréttindabrot og sakaði ráðið um hlutdrægni í málefnum Ísraels.

Ísland var kosið í mannréttindaráðið sumarið 2018 eftir að Bandaríkin sögðu sig úr því, og sat þar fram til ársloka 2019. Ísland var fámennasta ríkið sem kosið var til setu í ráðinu þar til Marshall-eyjar fengu sæti nú í ár.

„Mannréttindaráðið má ekki bara vera vettvangur fyrir stóru og voldugu ríkin. Ég trúi því að við höfum sýnt og sannað að smærri ríki geti tekið frumkvæðið í mikilvægum málefnum,“ sagði Guðlaugur, áður en kvað við hvassari tón í ræðunni þegar hann tók upp málefni Venesúela.

„Það hjálpar ekki trúverðugleika mannréttindaráðsins þegar ríki sem hafa á ruddalegan hátt gerst sek um brot á mannréttindum eru kosin til setu í ráðinu. Kjör Venesúela í október er nýjasta dæmið um þá sorglegu staðreynd. Harðstjórn Maduro hefur leitt til hörmulegra mannréttindabrota og fregnir af pyntingum og aftökum án dóms og laga eru mjög truflandi. Ríkisstjórn Venesúela ber ábyrgð en samt var ríkið kjörið til þess að sitja í þessu ráði frá og með 1. janúar,“ sagði Guðlaugur.

Sakaði ráðið um hlutdrægni gagnvart Ísrael

Guðlaugur ítrekaði að ráðið væri vettvangur til þess að eiga opinskáar umræður þar sem nauðsynlegt væri að halda ríkjunum ábyrg fyrir sínum gjörðum og gefa rödd til þeirra sem venjulega geta ekki haft sig frammi. Ísland hafi sýnt það í verki í störfum sínum í ráðinu, meðal annars með því að gagnrýna stöðu mannréttindamála í Sádí-Arabíu og Filipseyjum. 

„Þetta sýndi að mannréttindaráðið getur tekið á nauðsynlegum málum til þess að sýna mikilvægi sitt í augum heimsbyggðinnar,“ sagði Guðlaugur, en ítrekaði að ráðið hefði ekki alltaf sýnt trúverðugleika í verki. 

„Við verðum að halda áfram að fjalla um þá hlutdrægni sem ráðið sýnir í tengslum við Ísrael. Á meðan Ísland mun ekki hræðast það að gagnrýna yfirvöld í Ísrael þegar þess er þörf, þá trúum við því að slík gagnrýni hafi meira vægi þegar sömu reglur gilda um öll ríki,“ sagði Guðlaugur, og ítrekaði að þó mannréttindaráðið væri ekki fullkomið þá væri það samt mikilvægur vettvangur.

Hugarfarsbreyting nauðsynleg í alþjóðasamfélaginu

Guðlaugur fór einnig yfir mikilvægi þess að fjalla um mikilvægi þess að taka á launamun kynjanna og réttindum LGBTI-fólks.

„Við verðum að muna það að allar manneskjur eiga rétt á mannréttindum, óháð kyni, uppruna, kynhneigð eða trú. Sú staðreynd að í um 70 ríkjum Sameinuðu þjóðanna sé það enn flokkað sem lögbrot að vera samkynhneigður eða á einhvern hátt öðruvísi er óásættanlegt og við verðum að sættast á að breyta slíkum lögum,“ sagði Guðlaugur og kallaði eftir að alþjóðasamfélagið fordæmdi slíka löggjöf. 

„Þetta eru mannréttindi sem ég vil leggja alla okkar áherslu á. Ég treysti því að í sameiningu getum við ekki aðeins breytt slíkum lögum heldur einnig haft áhrif á skoðanir stjórnmálaleiðtoga, ríkisstjórna og almennings. Þannig munum við smám saman koma á nauðsynlegri hugarfarsbreytingu,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi