Guðlaugur Þór fundar með Boris Johnson

09.04.2017 - 12:53
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, á bókaðan fund með Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, um miðjan apríl vegna útgöngu Breta úr Evrópusambandinu - Brexit. „Við höfum kortlagt hinar ýmsu sviðsmyndir en fyrsti fundurinn verður nýttur til að fara yfir stöðuna almennt því menn hafa góðan tíma. Þetta er ekki að gerast á morgun.“

Guðlaugur segist sjálfur setja markið hátt í viðræðunum við Breta og vilja betri aðgang að breskum mörkuðum en Ísland hefur núna. „Svo á eftir að koma í ljós hvernig það verður. Svo skipta líka máli samskipti ESB og Bretlands,“ sagði Guðlaugur í Silfrinu á RÚV í hádeginu í dag. „Upplegið hjá bresku ríkisstjórninni er að þeir vilja hafa opið Bretland og vilja eiga viðskipti við heiminn. Og það eru góðar fréttir fyrir okkur.“

Guðlaugur segir að það séu tækifæri fyrir Íslendinga með útgöngu Breta. „Við erum ekki með fullan aðgang að breskum markaði núna.  Við erum með tolla á ýmsum afurðum, til dæmis fiski. Þannig að þótt EES-samningurinn sé góður og hafi reynst vel þá gætum við mögulega fengið meiri aðgang þar. Sama á við um landbúnaðarvörur.“

Guðlaugur segir að það sé yfirlýst stefna hjá forsætisráðherra Bretlands að fara í aukna fríverslun. „Við erum gott dæmi um hvað fríverslun skiptir miklu máli. Við vorum fátækasta þjóð Vestur-Evrópu fyrir hundrað árum og væru það eflaust enn ef við hefðum ekki aðgang að þeim mörkuðum sem við höfum núna.“

Utanríkisráðherra bendir á að bara millistéttin í Kína sé orðin fjölmennari en allir íbúa Bandaríkjanna og millistéttin á Indlandi sé að verða fjölmennari en sú kínverska. „Bara milljarðamæringar á Indlandi eru fjölmennari en öll Norðurlöndin. Einhverjir þurfa að selja þessu fólki vöru og þjónustu.“ Ef Íslendingar ætli sér að verða samkeppnishæfir þá verði þeir að hafa aðgang að þessum mörkuðum og vera opnir fyrir þeim líka.  „Og þegar fimmta stærsta efnahagsveldi heims ætlar sér að verða best í fríverslun þá munu þessir hlutir fara af stað og í þessu felast tækifæri.“

Guðlaugur segist vera bjartsýnn að eðlisfari og hið sama gildir um viðræður Breta og ESB um Brexit.  Hann hefur því ekki trú á þær viðræður muni leiða til viðskiptahindrana í Evrópu. Það eigi ekki að vera stórmál þegar ein þjóð ákveði að fara úr einu af þeim fjölmörgu samstörfum sem Evrópuþjóðirnar hafi. „Í raun eftir fjörutíu ár ættu menn að halda gott kveðjupartý og reyna síðan að gera þetta með allra bestum hætti.“

Allir muni tapa á því ef einhverjum hindrunum verði komið á. „Fyrir okkur Íslendinga er óhugsandi að hafa ekki aðgang að þessum stóra markaði. Þetta [Bretland] er eitt mikilvægasta viðskiptaland okkar og hefur verið miklu lengur en tíð þeirra í ESB.“ Að sjálfsögðu sé erfitt að spá fyrir um hvað verður í þessum viðræðum. „Vandi ESB hefði alltaf verið til staðar - hvort sem Bretar eru þar eða ekki. Grikkland, evran og lýðræðishallinn þar sem þeir sem stjórna eru ekki kosnir til valda og ekki er hægt að kjósa þá í burt.“

Þeir hafi áhyggjur af því að ef Bretland fái of góðan samning muni fleiri fylgja í kjölfarið. „Það þýðir að menn þurfa að horfa inn á við og skoða málin hjá sér.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi