Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Guðlaugur: Lítum mál Meisams alvarlegum augum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Guðlaugur: Lítum mál Meisams alvarlegum augum

31.01.2017 - 08:18
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir að mál Meisams Rafiei, íslensk landsliðsmanns í taekwondo, sé litið mjög alvarlegum augum. Íslensk stjórnvöld muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að aðstoða Íslendinga og koma þeim skilaboðum skýrt á framfæri við bandarísk stjórnvöld.

Meisam, sem er einn fremsti taekwondo-bardagamaður Íslands, var í gær vísað frá borði á leið sinni til Bandaríkjanna. Meisam er fæddur í Íran og er bæði með íranskan og íslenskan ríkisborgararétt. Íran er eitt þeirra sjö landa sem eru bannlista vegna tilskipunar Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir íslensk stjórnvöld líta mál Meisams mjög alvarlegum augum. „Þetta er svona í samræmi við það sem við höfðum áhyggjur af að gæti gerst. Þetta er ein af ástæðum fyrir því að við höfum gert athugasemdir og mótmælt þessari tilskipun. Við munum gera hvað við getum til að hjálpa okkar fólki og koma þeim skilaboðum skýrt áleiðis til bandarískra stjórnvalda.“

Guðlaugur segir að þeir muni áfram í vinna í þessu máli og ræða við þar til bæra aðila - meðal annars bandaríska sendiráðið hér á Ísland. Hann bendir hins vegar á að þar sé ekki kominn nýr sendiherra eftir að Robert Barber fór af landi brott eftir að Trump tók við völdum og ekki sé búið að skipa í margar stöður eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Washington.

Guðlaugur segir að íslensk stjórnvöld ætli sér að lýsa yfir óánægju með ákvörðun bandarískra stjórnvalda um að meina Meisam að koma til Bandaríkjanna og keppa fyrir Íslands hönd. „Þegar við greindum málið þá sáum við að þetta væri einn af þeim þáttum sem gæti komið upp. Ég vakti athygli á því þá og ég var að vonast að til þessa þyrfti ekki að koma - að þetta yrði afleiðing tilskipunarinnar en því miður varð það niðurstaðan.“

Lárus Blöndal, forseti Íþróttasambands Íslands, sagði í fréttum RÚV í gær að það væri sorglegt og ógnvekjandi að Meisam hefði verið vísað úr flugvélinni. Formaður Taekwondosambands Íslands sagði málið verða tekið upp við alþjóðataekwondo-sambandið og það evrópska. Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, sagði í tíu-fréttum Sjónvarps að það væri aldrei rétt leið að mismuna fólk - tilskipun Bandaríkjaforseta lýsti uppgjöf gagnvart hryðjuverkaógninni.

 

 

 

 

 

Tengdar fréttir

Íþróttir

Forseti ÍSÍ: Sorglegt og ógnvekjandi

Var fullvissaður um að íslenskt vegabréf dygði

Innlent

Vísað frá borði eftir að bréf barst að utan

Íþróttir

Íslendingur fær ekki að keppa á US Open