Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Guðlaugur harðorður í garð dómnefndarinnar

29.12.2017 - 19:10
Guðlaugur Þór Þórðarson
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Dómnefnd um hæfi umsækjenda um dómarastöður hefur gefið dómsmálaráðherra óljósar skýringar á því hvernig mati nefndarinnar á umsækjendum um stöður átta héraðsdómara var háttað. Skýringarnar „gefa í raun litlar sem engar upplýsingar“, segir ráðherra. Hann gagnrýnir matið í tíu liðum í bréfi sem hann sendi dómnefndinni í dag. Þar segir meðal annars að það sæti furðu að dómnefndin hafi ekki notast við stigagjöf – það sé í ósamræmi við fyrri framkvæmd.

Fréttastofa sagði frá því fyrr í dag að Guðlaugur, sem fer með málið vegna vanhæfis Sigríðar Andersen, hefði óskað eftir frekari rökstuðningi frá nefndinni, sem skilaði umsögn sinni fyrir rúmri viku og mælti þar með átta umsækjendunum í stöðurnar átta.

Dómsmálaráðuneytið hefur nú birt bréfið á vef sínum. Þar kemur meðal annars fram að andmæli hafi borist dómnefndinni frá 23 umsækjendum. Þegar ráðherra hafi lesið umsögnina og andmælin hafi vaknað ýmsar spurningar sem hann hafi leitað svara við með bréfi sem sent var 27. desember – til dæmis hvort dómnefndin hafi raðað umsækjendum með hlutlægum hætti í stigatöflu og hvert innbyrðis vægi ólíkra matsþátta hefði verið.

Andmæli ekki gaumgæfð sem skildi

Í bréfi ráðherra segir að svar dómnefndarinnar hafi innihladið óljósar skýringar sem ekki komu að neinu gagni. Hann þylur því næst upp tíu atriði sem hann telur athugunarverð í umsögn dómnefndarinnar. Á meðal þeirra er að umsækjendum hafi ekki verið raðað í stigatöflu, að þegar dómnefndin hafi raðað umsækjendum eftir dómarareynslu hafi dómari með átta ára reynslu lent ofar en annar með tuttugu ára reynslu, að lögmanni með yfir 30 ára reynslu af lögmannsstörfum sé raðið í 8. til 10. sæti yfir lögmannsreynslu og að stundum hafi nefndin ekki viljað gera upp á milli umsækjenda í einstökum matsþáttum.

„Þrátt fyrir að nefndin sé þannig ekki afgerandi varðandi innbyrðis mat í einstökum matsþáttum er hún afgerandi í lokaniðurstöðu sinni um að einungis átta umsækjendur, en ekki fleiri, séu hæfastir að mati umsækjenda,“ segir í bréfinu.

Þá segir í bréfinu að sum andmælin hafi borist nefndinni aðeins tveimur dögum áður en hún skilaði umsögn sinni, sem „bendi til þess að þau hafi ekki verið gaumgæfð sem skildi, enda er í mörgum tilvikum í minnisblaðinu að finna mjög stuttaralega afgreiðslu á andmælum um að þau hafi ekki leitt til breytinga á mati nefndarinnar. Eðlilegt hefði verið, að mati ráðherra, að nefndin hefði rökstutt í minnisblaðinu hvers vegna efnislegar, og að því er virðist réttmætar, ábendingar umsækjenda í mörgum tilvikum leiddu ekki til breytinga á umsögninni,“ segir í bréfi ráðherra.

Hvers vegna komu ekki fleiri til greina?

Ráðherra hafi ekki forsendur til að meta hvort hann skuli taka undir niðurstöðu nefndarinnar eða hvort hann skuli leggja til skipun annarra dómara, „þar sem rökstuðning skortir að miklu leyti fyrir niðurstöðum nefndarinnar“. „Nefndin virðist ekki hafa lagt forsvaranlegt mat á ákveðna þætti, eins og t.d. reynslu af dómarastörfum, og er erfitt fyrir settan ráðherra að átta sig á því heildstæða mati sem dómnefndin segist hafa framkvæmt,“ segir í bréfinu.

Í ljósi þess skamma tíma sem er til stefnu þar til hinir nýju dómarar þurfa að taka til starfa segist ráðherra ekki ætla að óska eftir nýrri umsögn frá nefndinni, heldur einungis fara þess á leit við hana að hún útskýri betur með hvaða hætti matið var framkvæmt og hvort rétt sé að taka tillit til athugasemda ráðherra. „Loks er óskað skýringa á því hvers vegna fleiri komu ekki til álita að mati nefndarinnar en þeir átta sem lagðir voru til,“ segir í bréfinu.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV