
Guðlaug segir af sér stjórnarformennsku
„Ég geng stolt frá borði, gengst glöð við þeim mistökum sem ég hef gert og óska fyrrum samstarfsfólki alls hins besta," segir Guðlaug á Facebook. Hún segir einnig að Björt framtíð hafi gert mörg mistök, líkt og hún sjálf.
„Að mínu mati hafa verstu mistök Bjartrar framtíðar falist í því þegar orð og gjörðir stangast á, þegar ákvarðanir eru teknar sem erfitt er að rökstyðja á grunni gilda flokksins. Myndun ríkisstjórnar fyrir ári síðan voru að mínu mati slík ákvörðun," skrifar hún.
Í frétt Vísis af málinu er vísað í bréf sem Guðlaug sendi stjórn Bjartrar framtíðar en þar kemur fram að stjórnin hafi óskað eftir afsögn hennar. Björt framtíð þurrkaðist út af þingi í afstöðnum þingkosningum. Óttar Proppé sagði af sér formennsku í flokknum í byrjun vikunnar.
Í kosningabaráttu fyrir alþingiskosningarnar birti Guðlaug mynd af undirskrift Jóns Gnarr á meðmælendalista fyrir Bjarta framtíð á Facebook og stakk upp á að hún yrði boðin upp til að styrkja kosningasjóð flokksins. Fjallað var um myndbirtinguna í fjölmiðlum en skömmu síðar var hún fjarlægð og Guðlaug sagðist sjá eftir uppátækinu.