Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Guðjón Hreinn nýr formaður FF

23.09.2019 - 16:24
Guðjón Hreinn Hauksson
 Mynd: Kennarasamband Íslands
Guðjón Hreinn Hauksson, framhaldsskólakennari við Menntaskólann á Akureyri, var kjörinn formaður Félags framhaldsskólakennara. Guðjón hlaut nærri þrjá fjórðu atkvæða í kjörinu. Gunnar Hólmsteinn Ársælsson, framhaldsskólakennari við Fjölbrautaskólann í Garðabæ, hlaut rúman fimmtung atkvæða. Þeir voru tveir í framboði. Um fimm prósent atkvæðaseðla voru auðir.

Um helmingur atkvæðabærra greiddu atkvæði, eða 882 af 1.763 á kjörskrá. Kjörið var rafrænt og haldið dagana 17. til 23. september. Guðjón Hreinn verður formaður FF fram að næsta reglulega aðalfundi sem verður haldinn árið 2022.

Í kosningabaráttunni sagði Guðjón Hreinn að ekki komi til greina fyrir framhaldsskólakennara að semja til langs tíma í kjaraviðræðum, nema tryggt verði að þeir fylgi viðmiðunarhópum í þróun launa og kaupmáttar. Mjög veigamiklar leiðréttingar á kjörum hafi náðst með samningum í apríl 2014, en nú stefni í að framhaldsskólakennarar dragist aftur úr. 

Eins sagði Guðjón Hreinn að ný lög um menntun og ráðningu hafi verið keyrð í gegn án þess að kennarastéttin hafi verið fengin til þess að hafa raunveruleg áhrif. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV