Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Guðjón hafi átt sjálfur sök á málinu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkislögmaður telur að Guðjón Skarphéðinsson, einn þeirra sem voru sýknaðir í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, eigi ekki rétt á bótum þar sem hann hafi sjálfur átt sök á því að hann var ranglega dæmdur. Guðjón stefndi ríkinu í júní og krafðist bóta upp á 1,3 milljarða króna eftir að sáttaviðræður við ríkið sigldu í strand. Ríkislögmaður hafnar bótakröfum Guðjóns og krefst fullrar sýknu og að Guðjón greiði málskostnað. Þetta kemur fram í greinargerð sem fréttastofa RÚV hefur undir höndum.

Andri Árnason er settur ríkislögmaður í málinu. Í greinargerðinni eru málsatvik frá áttunda áratug síðustu aldar rakin á fimm blaðsíðum. Guðjón var handtekinn 12. nóvember 1976 og lauk afplánun 12. október 1981. Hann var því sviptur frelsi sínu í tæp 5 ár.

Fram kemur í greinargerðinni að Guðjón krefst bóta fyrir

  • ólöglega handtöku
  • ólöglegt gæsluvarðhald
  • ranga dóma
  • ólöglega afplánun
  • ólöglegt skilorð
  • ólöglega leit
  • ólöglega haldlagningu
  • ólöglega símahlustun
  • og ólöglega læknisskoðun.

Þá segir að ríkið hafni öllum málatilbúnaði hans. Ríkislögmaður vitnar í 246. gr. laga um meðferð sakamála þar sem segir að fella megi „niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á.“ Þá er einnig vitnað til bráðabirgðaákvæðis sömu laga þar sem segir: Reglum eldri laga skal beitt um bætur fyrir það sem gerst hefur fyrir þann tíma (það er, gildistöku laganna en þau tóku gildi í ársbyrjun 2009). Þannig telur ríkislögmaður að bótarétturinn eigi að byggjast á lögum frá 1974.  Í þeim segi að minnka megi bætur, eigi viðkomandi sök á því að hann var ranglega dæmdur.

Hvorki starfshópur né endurupptökunefnd jafngildi dómkvöddum matsmönnum

Ríkislögmaður víkur einnig að skýrslu starfshóps sem Ögmundur Jónasson, þáverandi innanríkisráðherra skipaði árið 2011. „Sérstaklega skal áréttað að álitum [í skýrslu starfshópsins] verður ekki jafnað til matsgerðar dómkvaddra matsmanna eða sambærilegrar sönnunar í einkamáli. Er þá ekki hvað síst litið til meints vanhæfis sálfræðiráðgjafa. [...] Með sama hætti verður ekki talið að álit endurupptökunefndar [...] teljist sönnunargagn að því er varðar málsatvik.“

Ríkislögmaður telur að skaðabótakröfur Guðjóns vegna ólöglegrar handtöku o.fl. séu fyrndar.

Þá segir í greinargerðinni: „Telja verður að stefnandi hafi, með vísan til framangreinds, þolað frelsissviptingu vegna dóma sem hann hlaut árin 1977 og 1980 og hann var síðar sýknaður af með dómi Hæstaréttar í máli nr. 521/2017. Á hinn bóginn verður að telja að stefnandi hafi átt sök á því að hann var ranglega dæmdur. Með vísan til atvika hafi hann glatað rétti til bóta.“

Skýringar ótrúverðugar og með ólíkindablæ

Jafnframt segir í greinargerðinni að Guðjón hafi ekki dregið framburð sinn til baka og því hafi átt sök á því að hann var dæmdur og glatað rétti til skaðabóta frá ríkinu. Honum hafi átt að vera ljóst að framburður hans myndi styrkja rannsakendur í vissu um að rannsóknaraðgerðir væru nauðsynlegar. „Þá verður að telja að síðari skýringar stefnanda [Guðjóns] á því, af hvaða ástæðum hann ákvað að draga ekki játningar sínar til baka, séu hvort tveggja ótrúverðugar og með ólíkindablæ,“ segir í greinargerðinni. 

Þá segir að skömmu eftir að Guðjón hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald í nóvember 1976 hafi hann gefið lýsingu á atvikum (og sinni aðkomu að þeim), sem ekki hafi getað leitt til annars en gruns um aðild að andláti manns og stuðlað að því að hann sæti áfram í gæsluvarðhaldi.

Ríkið hafnar „öllum ávirðingum gagnvart lögreglu og dómstólum, svo og ásökunum um meinta refsiverða háttsemi lögreglu, ákæruvalds og dómstóla [...] enda ósannaðar með öllu,“ segir í greinargerðinni.

Bent er á að Guðjón hafi ekki verið í fastri vinnu þegar hann var handtekinn og að hann hafi verið til rannsóknar fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Einnig verði að líta til þess við mat á fjárhæð bóta að Guðjón hafi dvalist verulegan hluta gæsluvarðhaldsins á Kvíabryggju og honum hafi að eigin sögn liðið prýðilega. „Verður þeirri vistun á engan hátt „jafnað“, í fjárhæðum talið, við gæsluvarðhald sem nefndir fjórmenningar sættu í hæstaréttarmálum nr. 124-127/1980,“ segir í greinargerðinni og er þar vísað til fjögurra manna sem fyrrum sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum báru rangar sakir á.

„Af þessu tilefni skal tekið fram að stefndi andmælir ekki að fangelsið í Síðumúla hafi ekki verið sem hentugast til einangrunarvistar gæsluvarðhaldsfanga til langs tíma [...] en því er mótmælt að aðbúnaðurinn hafi verið ólögmætur. Hins vegar verður ekki fallist á að stefnandi hafi sætt andlegri og líkamlegri raun, umfram það sem atvik og aðstæður kölluðu á, en stefnandi hefur sérstaklega viðurkennt að hann hafi ekki sætt neins konar harðræði í vaðhaldi sínu. [...] Að hálfu stefnda er hafnað að stefnandi hafi sætt pyntingum í einangrunarfangelsi, þó svo að fallast megi á að sá tími hafi verið umtalsverður,“ segir í greinargerðinni.

Hér má lesa greinargerð ríkislögmanns.