Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Guðfinna vill að Hrólfur Ölvisson hætti

27.04.2016 - 10:52
Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós - RÚV
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, oddviti Framsóknar og flugvallarvina í borgarstjórn Reykjavíkur, telur að Hrólfur Ölvisson framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins eigi að hætta. Í Kastljósi á mánudag var fjallað um viðskipti Hrólfs í gegnum aflandsfélög. Fram kom í umfjöllun um Panama-skjölin að Hrólfur hefði stofnað aflandsfélag árið 2003 til þess að leyna fjárfestingum í dönsku fyrirtæki.

Þingmenn og ráðherrar Framsóknarflokksins hafa hingað til lítið viljað tjá sig um mál Hrólfs, en Guðfinna Jóhanna telur að hann eigi að víkja. Aðspurð hvað henni finnist um stöðu framkvæmdastjórans eftir afhjúpunina í Kastljósi, segir Guðfinna: „Mér finnst hún ekki góð.“

Er honum sætt áfram sem framkvæmdastjóri flokksins?
„Mér finnst persónulega að hann eigi að fara. Við þurfum að skapa traust í samfélaginu. Fólk er ennþá reitt eftir hrunið. Það á ennþá eftir að gera það alveg upp og ef við ætlum að geta unnið öll saman þá þurfum við að taka ábyrgð á þessum hlutum. Þá er ég ekki að segja það að það sé eitthvað ólöglegt að eiga aflandsfélag eða að hafa komið nálægt því svo framarlega sem félög eru skráð hér á landi og skattar og skyldur eru greiddar af þeim.“

Hefur hann brugðist trausti ykkar?
„Mér finnst að framkvæmdastjóri stjórnmálaflokks eigi ekki að vera að stunda viðskipti.“

Hefur þú viðrað þessa skoðun við aðra flokksmenn?
„Einhverja já.“

Er samhugur um þetta í flokknum?
„Ég hef nú bara verið að einbeita mér að borgarmálunum undanfarna daga.“