Grundarfjarðarbær

05.05.2014 - 16:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Sveitarfélagið hét áður Eyrarsveit, en nafninu var breytt í Grundarfjarðarbæ árið 2002. Engar sameiningar hafa verið í þessu sveitarfélagi.

Framboðsmál

Í kosningunum 2010 fékk L-listi Bæjarmálafélagsins Samstöðu hreinan meirihluta, eða fjóra bæjarfulltrúa. Þetta framboð er ekki tengt stjórnmálaflokkum. Sjálfstæðisflokkurinn fékk þrjá menn. Báðir þessir listar bjóða fram aftur, reyndar undir aðeins breyttum nöfnum. L-listinn heitir núna listi Samstöðu og D-listinn heitir listi Sjálfstæðismanna og óháðra. Ekki er talið líklegt að fleiri listar líti dagsins ljós.

Mikil endurnýjun verður hins vegar í bæjarstjórn. Eyþór Garðarsson, oddviti L-listans, er sá eini af þeim lista sem ætlar að halda áfram í bæjarstjórn. Og af Sjálfstæðismönnum heldur aðeins Rósa Guðmundsdóttir áfram en hún er efst á þeim lista nú. Efsti maður listans síðast, Þórður Magnússon, vermir reyndar fimmta sætið.

Helstu mál

Gríðarlega erfið fjárhagsstaða blasti við bæjarstjórn í upphafi kjörtímabils. Staðan var svo slæm að við lá að sveitarfélagið gæti ekki greitt starfsmönnum sínum laun. Skuldir voru um 270% af tekjum, sem er langt umfram þau 150% sem stefna á að fyrir árið 2018 samkvæmt lögum.

Bæjaryfirvöld fóru því markvisst í að ná skuldunum niður með fulltingi Eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga. Mikið var skorið niður í rekstrinum, meðal annars var byggingafulltrúa bæjarsins sagt upp störfum og samið við Snæfellsbæ um að hafa sameiginlegan byggingafulltrúa með því sveitarfélagi. Menningarfulltrúanum var einnig sagt upp en annar var ráðinn nýlega í staðinn. Þessar aðgerðir hafa borið árangur. Samkvæmt síðasta ársreikningi var rekstrarafgangur 24,6 milljónir, lausafjárstaðan hafði batnað og áfram var haldið að greiða niður skuldir. Skuldahlutfallið var komið niður í 173% um síðustu áramót þannig að mikið hefur áunnist í þeim málum þó að lögbundnum mörkum hafi ekki verið náð ennþá. Stefnt er að því árið 2019. Skuldirnar nema nú 1,7 milljónum á hvern íbúa.

Til marks um árangurinn gaf Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga það út í mars á þessu ári að nefndin sæi ekki ástæðu til frekari aðkomu hennar að fjármálum Grundarfjarðar. Það þótti sýna fram á að sveitarfélagið hefði burði til að standa við skuldbindingar sínar, ekki aðeins gagnvart íbúum heldur líka kröfuhöfum. „Framlegð af rekstrinum er góð og hefur verið stöðugt undanfarin ár,“ segir Björn Steinar Pálmason bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar.

Áfram er stefnt að því að koma skuldahlutfallinu niður, en helsta vandamál sveitarfélagsins er  of litlar tekjur.

Strax var sett sú stefna að standa vörð um grunnþjónustuna. Til að mynda hafa börn komist á leikskóla þar strax við eins árs aldur, og var ákveðið að hrófla ekki við því þrátt fyrir erfiða fjárhagsstöðu. Staðan þýddi hinsvegar að ekki var mikið svigrúm til að byggja upp í sveitarfélaginu. Þó var sögumiðstöðin yfirtekin þegar allt stefndi í að hún myndi hætta starfsemi. Bókasafnið var fært í húsnæði miðstöðvarinnar.

Þá er byrjað að gera ráðstafanir til að flytja bæjarskrifstofurnar í það húsnæði sem bókasafnið var í áður. Það er aðallega gert til að bæjarskrifstofurnar uppfylli lagaskilyrði um aðgengi fatlaðra að þjónustu sem þar er veitt. Gert er ráð fyrir að bæjarskrifstofurnar verði fluttar þangað fljótlega eftir páska.

Aðaláherslan hefur verið á að halda fjárfestingum við, en lítið hefur verið um nýframkvæmdir. Mikið var hins vegar um þær fyrir hrun og ekkert hefur verið aðkallandi í þeim efnum.

Sjávarútvegurinn hefur verið stærsti atvinnuvegurinn í sveitarfélaginu og lætur nærri að um helmingur vinnuafls þar starfi í greininni. Helstu sjávarútvegsfréttirnar frá Grundarfirði hafa hins vegar verið af síldardauða í Kolgrafarfirði.

Hlutur ferðaþjónustunnar fer hins vegar vaxandi. Hótel og gistirými eru mikið bókuð, ekki aðeins yfir sumarið heldur einnig yfir vetrartímann. Eitt mesta aðdráttaraflið þar er fjallið Kirkjufell, sem er vinsæl gönguleið. Þá eru hvalaskoðunarferðir frá Grundarfirði mjög vinsælar.

Hitaveitumál eru einnig í ítarlegri skoðun hjá sveitarfélaginu. Samningur var gerður við Orkuveitu Reykjavíkur árið 2005 um að virkja holu við Berserkseyrarodda. Orkuveitan telur það vatn hins vegar ekki nýtilegt og vill ekki gera meira. Sveitarfélagið telur að ekki sé fullreynt með það og að Orkuveitan sé með þessu ekki að efna samninginn. Stærsta málið sem nú er framundan er að ljúka þessu máli. Eftir það mun svo standa eftir spurningin um hvort fara eigi í að finna heitt vatn eða leita leiða til hagræðinga í húshitun með rafmagni.

Mikið samstarf er við önnur sveitarfélög á Snæfellsnesi. Til dæmis er starfsrækt skóla- og félagsþjónusta á Snæfellsnesi á vegum Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, en hún sér meðal annars um félagsþjónustu á nesinu, þar á meðal málefni fatlaðra. Þá hafa sveitarfélögin stofnað Svæðisgarðinn Snæfellsnes í þeim tilgangi að mynda landslags- og menningarlega heild. Með þessu á að marka sérstöðu Snæfellsness betur. „Það verður meðal annars unnið sameiginlegt svæðisskipulag þar sem ekki er gert ráð fyrir mengandi stóriðja. Þá er hugmyndin að afmarka matvælaframleiðsluna héðan og merkja sérstaklega matvæli frá nesinu,“ segir Björn Steinar.

Þá má nefna að L-listinn tók upp íbúafundi tvisvar á ári – á vorin og á haustin – til að upplýsa íbúa um helstu mál bæjarins þannig að þeir gætu fylgst með því sem væri að gerast.

Á kjörtímabilinu kom beiðni frá Eyja- og Miklaholtshreppi þar sem beðið var um fýsileikakönnun um sameiningu allra sveitarfélaga á Snæfellsnesi. Þetta eru, auk hreppsins og Grundafjarðar, Snæfellsbær, Stykkishólmur og Helgafellssveit. Grundarfjarðarbær var tilbúinn í slíka könnun en ekki varð af henni vegna andstöðu Snæfellsbæjar. Aðrar þreifingar hafa ekki átt sér stað á þessu kjörtímabili.

Framundan

Rósa Guðmundsdóttir segir mikilvægt að horfa bjartsýn fram á veginn. „Við þurfum að byggja okkur upp, fara jákvætt í atvinnuþróun og greiða niður skuldir. Þá þurfum við að huga vel að umhverfis- og auðlindamálum og byggja upp samfélag sem laðar til sín íbúa og fyrirtæki.“

Eyþór segir að brýnustu verkefnin séu tvö. Annars vegar að ná skuldahlutfallinu niður fyrir 150% og hins vegar að klára samningamálin við Orkuveitu Reykjavíkur vegna borholunnar við Berserkseyrarodda. „Samningurinn þýðir að við höfum ekki réttindi til að nýta heita vatnið. Við erum á sama tíma að kynda grunnskólann með olíu, sem er mjög dýrt, og að auki er sundlaugin okkar aðeins opnuð í þrjá mánuði á ári. Það þarf annaðhvort að fá Orkuveitu Reykjavíkur til að standa við samninginn eða fá hitaveituréttindin aftur.“ Að auki stefnir L-listinn að því að taka upp svokallaðan núll-bekk í grunnskólanum, sem yrði ætlaður finn ára börnum. Það létti á leikskólanum, en álag á hann jókst eftir að ákveðið var að byrja að taka eins árs börn inn í hann. Að auki er Eyþór þeirrar skoðunar að ekki eigi að fara í sameiningu sveitarfélaga heldur frekar að auka samstarfið á milli þeirra.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi