Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Grunaður um 110 milljóna króna fjársvik

14.01.2013 - 13:46
Mynd með færslu
 Mynd:
Fertugur Íslendingur hefur setið í gæsluvarðhaldi í Danmörku síðan í lok október grunaður um 110 milljóna króna fjársvik. Þetta staðfestir yfirmaður efnahagsbrotadeildar dönsku lögreglunnar, Henning Bjarne Schmidt. Maðurinn sveik út 6-800 I-phone síma sem hann plataði fólk til að kaupa fyrir sig.

Maðurinn var handtekinn í miðborg Kaupmannahafnar í lok október.  Hann hefur setið á bakvið lás og slá síðan og Bjarne Schmidt segir að hann verði í gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, það verði hins vegar ekki fyrr en eftir nokkra mánuði. 

Að sögn Bjarne Schmidt fólust svikin í því  að maðurinn fékk fólk til að kaupa I-phone síma frá Apple og hélt því fram að hann gæti grætt umtalsverða peninga með því að selja þá á Íslandi. Fólkið átti síðan að fá sinn hluta af gróðanum en fæstir sáu eitt eða neitt af gróðanum.  Bjarne Schmidt segir að um sé að ræða fjárhæðir uppá 4,8 milljónir danskra, 110 milljónir íslenskra króna og að málið sé mjög umfangsmikið, þeir þurfi meðal annars að ná tali af öllum þeim sem keyptu I-phone síma fyrir íslenska manninn.