Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Grunaðir um peningafölsun: Með mikið af klinki

29.10.2018 - 17:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mennirnir tveir sem lögregla handtók í Landsbankaútibúinu í Borgartúni í dag eru grunaðir um peningafölsun. Þetta segir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hann vill þó ekki ræða um fjárhæðir á þessu stigi. Fleiri hafa ekki verið handteknir vegna málsins. Sjónarvottur segir að mennirnir hafi verið með fulla haldapoka af klinki og matað mynttalningavélar á peningunum þar til þeir voru stöðvaðir.

Starfsfólk bankans óskaði eftir lögregluaðstoð undir hádegi í dag og mennirnir voru skömmu síðar færðir í járn og út í lögreglubíl. Margeir segir að rannsóknin sé á frumstigi. Til skoðunar sé meðal annars hvort mennirnir hafi komið til landsins gagngert til að fremja brot. Hann segist að minnsta kosti ekki telja að þeir séu búsettir hérlendis.

Rúnar Pálmason, upplýsingafulltrúi Landsbankans, sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag að mennirnir hafi ekki haft í frammi hótanir eða ógnanir af neinu tagi. Sjónarvotturinn sem fréttastofa ræddi við sagði þó að þeir hafi ekki brugðist vel við þegar starfsmaður bankans stöðvaði þá við að raða myntinni í talningavélina.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV