Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Grunaðir um fjármálabrot

28.10.2015 - 20:35
Tveir íslenskir bræður sem hafa verið til rannsóknar vegna meintra fjármálabrota hafa safnað háum fjárhæðum vegna nýsköpunarverkefna á síðunni Kickstarter. Þeir kannast ekki við að rannsókn sé í gangi og segja að lögregla eða önnur yfirvöld hafi ekki haft samband.

Heimildir Kastljóss herma þó að þeir séu til rannsóknar vegna fjármálabrota. 

Þeir Einar og Ágúst Arnar Ágústssynir eru mennirnir á bak við fyrirtækið Janulus og reyndar fleiri fyrirtæki, svo sem Skajaquoda. Á vefsíðunni Kickstarter hafa þeir kynnt þrjú verkefni á vegum þessara fyrirtækja og óskað eftir fjármögnun vegna hönnunar og framleiðslu. Um er að ræða sérstaka sólarrafhlöðu sem fest er á ólar á bakpoka, tengisnúru sem þeir segja að dugi í raun fyrir allan gagnaflutning og svo vindmyllu sem koma á í nokkrum stærðum. Samkvæmt upplýsingum á síðunni hefur fjármögnun verkefnanna gengið vel.

Samkvæmt Kickstarter söfnuðust tæpir hundrað þúsund dollarar vegna TOB snúrunnar, um 19 þúsund vegna sólar rafhlöðunnar og 75 þúsund í fyrri umferð söfnunar vegna vindmylluverkefnisins Trinity.

Eftir vel heppnaða söfnun var ákveðið að fara í aðra söfnun til að þróa Trinity enn frekar. Sú söfnun var komin í um 150 þúsund dollara þegar Kickstarter lokaði henni. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Kickstarter þarf töluvert til að söfnun sé lokað, til að mynda að rangar upplýsingar séu gefnar um verkefnið, að grunur leiki á um að blekking sé viðhöfð varðandi söfnun peninganna eða að í raun sé verið að kynna vörur sem aðrir hafi framleitt. Kastljós sendi Kickstarter fyrirspurn vegna málsins í dag en hafði ekki fengið svör nú undir kvöld.

Fjármögnun nýsköpunarverkefna er flókin og þeir sem þekkja til vita hversu mörg vandamál geta fylgt frumþróun og framleiðslu. Það, að vara reynist gölluð, eða að þróun leiði ekki til framleiðslu á fullbúinni vöru, er ekki glæpur og reyndar er líklegra frekar en hitt að nýsköpunarverkefni leiði ekki til virðisskapandi framleiðslu fyrir fjárfesta eða hönnuði. Því þarf meira til að grunsemdir vakni um fjármálabrot.

baldvinb's picture
Baldvin Þór Bergsson
dagskrárgerðarmaður