Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

GróLind veitir von um betri nýtingu auðlinda

19.03.2019 - 16:32
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Þess er vænst að innan nokkurra ára geti samstarfsverkefni fjögurra stofnana gert Íslendingum kleift að skipuleggja landnýtingu betur. Þá verður hægt að fylgjast með auðlindum og stýra nýtingu út frá ástandi þeirra.

GróLind er samstarfsverkefni Landssamtaka sauðfjárbænda, Landgræðslunnar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Bændasamtaka Íslands um að vakta og meta ástand gróður- og jarðvegsauðlinda landsins.

Tvö meginmarkmið

Bryndís Marteinsdóttir er verkefnastjóri en hún segir að markmiðin með verkefninu séu tvö. „Í fyrsta lagi að setja á fót vöktun og mat á gróður- og jarðvegsauðlindum Íslands, sem sagt bara til að meta hvert er ástand þessara auðlinda og hvernig er það að breytast. Í öðru lagi að þróa sjálfbærnivísa fyrir landnýtingu, sem sagt hvenær erum við að nýta þessar auðlindir á sjálfbæran hátt og hvenær ekki.“

Kortlagning beitilanda

Landgræðsla ríkisins hefur yfirumsjón með verkefninu en það er fjármagnað til 10 ára í gegnum búvörusamninga. Verkefnið hófst árið 2017 og hafa fyrstu tvö árin farið í þróun og skipulagningu. Einnig hefur verið unnið að kortlagningu beitilanda og atferli sauðfjár á afréttum kannað með staðsetningartækjum. Markmiðið er að fá heildarsýn yfir það hvaða landsvæði eru nýtt til búfjárbeitar. Þessa kortlagningu verður síðar hægt að tengja við ástandsmat GróLindar og mun það þannig nýtast landnotendum, stjórnvöldum og öðrum við að skipuleggja landnotkun og ná yfirsýn yfir ástand beitilanda.

„Í grunninn þá er þetta verkefni hugsað sem tæki til framtíðar þar sem við getum verið að fylgjast með auðlindunum og stýrt okkar nýtingu miðað við ástand þeirra. Það er náttúrulega okkar vona að þetta verði bara tækið sem er mikið notað í framtíðinni.“ segir Bryndís.