Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Grjótagjá er gruggug

22.05.2012 - 20:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Ein frægasta náttúrulaug landsins, Grjótagjá í Mývatnssveit, er menguð. Gjáin hefur fengið á sig mjólkurlitan blæ en verið er að rannsaka hvað veldur þessari litabreytingu.

Grjótagjá í Mývatnssveit var vinsæll baðstaður á 8. áratugnum en í kjölfar Kröfluelda lögðust böð þar af því vatnið varð of heitt. Í dag er gjáin vinsæll áfangastaður ferðamanna sem flestir láta sér nægja að dýfa hendinni ofan í, þó svo hitastig vatnsins hafi lækkað það mikið að hægt sé að baða sig á ákveðnum stöðum. Vatnið er hinsvegar ekki lengur eins blátært og í gamla daga þegar sást til botns í gjánni.

„Núna hefur þetta breytst þannig að það er kominn svona mjólkurlitur sem bendir til þess að það sé einhverskonar mengun á ferðinni. Þetta er eitthvað sem ég tók eftir í hittifyrra en gæti verið búið að vera lengur," segir Árni Einarsson líffræðingur. 

Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn ætlar í sumar að kanna hvað veldur þessum litabreytingum á vatninu og þessa dagana er verið að taka fyrstu sýnin. 

„Við erum með tvær tilgátur í huga. Önnur er sú að þetta tengist borholunum sem eru hér rétt fyrir ofan eða þá að þetta tengist baðlóninu. Við vitum ekki ennþá hvor tilgátan er líklegri," segir Árni. 

Niðurstöður rannsóknanna munu væntanlega liggja fyrir í haust. Gjáin verður eftir sem áður opin almenningi í sumar en það er aðeins fyrir þá allra hörðustu að stinga sér í gjána, því vatnið er í það heitasta.