Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Grindhvalurinn var aflífaður

26.08.2019 - 17:59
Mynd með færslu
Frá björgunaraðgerðum í morgun.  Mynd: RÚV - Haukur Holm
Búið er að aflífa grindhvalinn sem rak að norðurströnd Seltjarnarness í dag. Það var mat dýralæknis Matvælastofnunar að nauðsynlegt væri að binda enda á þjáningar dýrsins, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. Hvalurinn var við slæma heilsu. Séraðgerða- og sprengjueyðingarsvið Landhelgisgæslunnar var kallað til með viðeigandi búnað og aflífaði dýrið á sjötta tímanum. Hræinu verður sökkt.

Hvalinn rak nálægt landi í morgun og voru björgunarsveitir, dýralæknir frá Matvælastofnun og aðrir viðbragðsaðilar kallaðir til. Það tókst að koma honum nokkuð frá landi en hann synti í hringi og virtist ekki heill heilsu. Fólk á báti reyni að beina honum út á meira dýpi.