Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Grindhvalur strandaði í Hvalfirði í gær

13.09.2019 - 16:13
Mynd með færslu
 Mynd: Stephanie Langridge - Aðsend mynd
Grindhvalur strandaði nálægt Hvammsvík í Hvalfirði í gær. Talið var að hvalurinn væri veikur og átti því að aflífa dýrið færi það ekki aftur út á sjó, sagði Þóra J. Jón­as­dótt­ir, dýra­lækn­ir dýravelferðar hjá Matvælastofnun. Hvalurinn komst aftur á flot og ekki hefur sést til hans síðan.

Björgunaraðgerðir gengu erfiðlega fyrst um sinn

Fyrst um sinn gekk illa að reyna að reka dýrið frá landi og hann kom alltaf til baka, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Að lokum, þegar flæddi aftur að, komst hann af sjálfsdáðum aftur á flot og sást synda í hringi smá ringlaður fyrst um sinn, sagði Þóra í samtali við fréttastofu. Mbl.is greindi fyrst frá.

Síðan þá hefur eki sést til hans koma aftur að landi, að Matvælastofnun og lögreglu vitandi. Þóra segist vona að hann hafi spjarað sig. Reki hann aftur á land finnst hann vonandi fljótt svo hægt sé að grípa til aðgerða, segir hún.

Á undanförnum dögum hefur sést til dýrs synda á þessum slóðum og láta óeðlilega. Þau telji að mögulega sé um sama dýrið að ræða. 

Átti að aflífa hann ef hann kæmist ekki aftur út á flóði

Hún segir að hvalurinn hafi virst vera veikur. Til dæmis séu grindhvalir hópdýr og því óvanalegt að þeir séu einir á ferð. Það geti bent til þess að hann hafi verið veikur. Til dæmis þurfti að aflífa hval, sem rak á land á norðurströnd Seltjarnarnes í ágúst, sökum slæmrar heilsu hans. Hann er talinn hafa verið einn á ferð. 

Þá var dýrið grannt og með öra öndun og því ekki ólíklegt að það væri veikt. Því var tekin sú ákvörðun að, kæmist hann ekki út á flóði, þyrfti að aflífa hann, segir Þóra. 

Þóra segir að það að stranda geti haft áhrif á jafnvægiskerfi hvalanna þannig að þeir geti synt svolítið út á hlið fyrst um sinn, jafnvel í hringi og þá geti þeir sótt aftur í land. Þeir séu oft ringlaðir og nái ekki alveg að rétta sig strax af. Því er ekki endilega nóg að koma þeim af landi, heldur þarf stundum að styðja þá út á haf, segir hún. nesið.