Grímsstaðakaupin samræmist verndun laxastofna

20.12.2016 - 12:12
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sviðsstjóri hjá Hafrannsóknarstofnun segir að verndarsjónarmið laxastofna geti vel samrýmst kaupum á landi á Grímsstöðum á Fjöllum. Breskur auðkýfingur hefur keypt meirihlutann í Grímsstöðum og segir að tilgangurinn sé að vernda laxveiðiár og laxastofna á Norðausturlandi.

Það er breski milljarðamæringurinn Jim Ratcliffe sem hefur keypt meirihlutann í Grímsstöðum á Fjöllum. Hann er jafnframt eigandi þriggja jarða í Vopnafirði þar sem eru gjöfular laxveiðiár. Í tilkynningu segir Ratcliffe að tilgangur hans með kaupunum sé að vernda laxveiðiár á Norðausturlandi og þetta sé þáttur í verndum villtra laxastofna við Atlantshaf. Á Grímsstöðum sé vatnasvið mikilvægra laxveiðáa.

Efti hluti Selár í landi Grímsstaða

Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri ferskvatnslífríkissviðs Hafrannsóknarstofnunar, bendir á að hér á landi fylgi veiðiréttur landi. Grímsstaðir eigi land að efti hluta Selár í Vopnafirði og hliðarám sem til hennar falla. „Eftir að fiskvegir voru gerðir í Selá þá er þetta orðið sama fiskihverfi,“ segir Guðni. „Þannig að hann á orðið þarna veiðirétt með öðrum og hefur þá atkvæðisrétt inn í veiðifélg Selár, væntanlega, og getur þá látið sína rödd heyrast.“

Getur samræmst kaupum á Grímsstöðum

Hann segir að samkvæmt íslenskum lögum skuli nýting laxveiðiáa vera sjálfbær. Það sé því skylda hvers veiðifélags að framfylgja því. Ef menn komi vel meinandi inn í slíkan félagsskap þá samræmist það kaupum á landi eins og hér um ræðir. Hinsvegar séu dæmi um annars konar not, virkjanir meðal annars. En fiskirækt og -verndun virðist vera tilgangurinn í þessu tilfelli. „Og ef menn setja þessi not öðrum framar, þá eru menn allavega búnir að gefa út yfirlýsingu um það hvað menn ætlast fyrir með sínum fjárfestingum,“ segir Guðni.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi