Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Grímseyingar undirbúa jól á stysta degi ársins

21.12.2018 - 13:15
Innlent · jól · Norðurland · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Í dag eru vetrarsólstöður og því stysti dagur ársins. Af öllum landsmönnum fá Grímseyingar fæstar birtustundir, þar skín sólin aðeins í tvo klukkutíma. Eyjaskeggjar láta það ekki á sig fá við undirbúning jólanna en óvenjumargir verða í Grímsey þessi jól.

Þessa dagana er sólin lægst á lofti á norðurhveli jarðar og í dag, 21. desember, eru vetrarsólstöður. Þá er sólargangurinn stystur, nánar klukkan 22:23 í kvöld. Hvergi þó styttri hér á landi en í Grímsey, norður við heimskautsbaug.

Heiðskýrt og sólaruppkoman falleg

Ragnhildur Hjaltadóttir, umboðsmaður Norlandair í Grímsey, segir daginn engu að síður afar fallegan. „Hér er heiðskýrt og það er svo fallegt þegar sólin er að koma upp og roðinn í suðri. Bara fallegt!“
„En þið fáið ekki að njóta hennar nema í tvo tíma í dag?“ 
„Nei það er alveg nóg þegar þetta er svona fínt. Í gær var hérna svo svarta þoka að það birti aldrei. Við erum mjög kát með þessa tvo tíma.“ Þá segir hún að jólaljósin njóti sín enn betur í myrkrinu.

Óvenjumargir heima í Grímsey þessi jól

En Grímseyingar, eins og aðrir landsmenn, undirbúa nú jól og Ragnhildur segir að óvenjumargir verði í eynni þessa jólahátíð. „Já við verðum bara ótrúlega mörg þessi jól. Ég held við verðum hátt í 60. En það fara nú einhverjir milli jóla og nýárs samt.“
„Þetta hefur verið færra undanfarið?“ 
„Ójá, við fórum niður í ellefu í haust. Þannig að við erum glöð hverri þeirri persónu sem mætir í Grímsey og fagnar jólunum með okkur. Svo er hérna jólahlaðborð í kvöld og skemmtlegt á Þorláksmessunni, þá hittumst við í hádeginu og borðum skötu saman í félagsheimilinu. Þannig að það er mikil samvera hérna yfir jólin,“ segir Ragnhildur.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV