Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Grímsey enn í vanda þrátt fyrir aðgerðir

04.10.2017 - 19:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Aðgerðir sem gripið var til fyrir tæpum tveimur árum, og áttu að styðja við byggð í Grímsey, eru ekki taldar hafa borið tilætlaðan árangur. Fólki fækkar í eyjunni og þar skortir sérstaklega ungt fólk.

Það var síðla árs 2015 sem ríkisstjórnin ákvað að ráðist yrði í séstakar aðgerðir í Grímsey. Meðal annars var 400 tonna byggðakvóta veitt þangað, ferðum Grímseyjarferjunnar var fjölgað og flugfargjöld til íbúanna lækkuð. Þá hóf útgerðin séstakar viðræður um aðgerðir í skuldamálum.

Ekki gengið sem skyldi

Nú er ljóst að þessar aðgerðir hafa ekki skilað því sem vonir stóðu til. „Nei það er óhætt að segja það,“ segir Gunnar Gíslason, bæjarfulltrúi hjá Akureyrarbæ. „Það hefur kannski ekki gengið sem skyldi miðað við þau markmið sem voru sett í þessu verkefni.“

Neyddust til að selja bát og kvóta 

Á þessu ári seldi eitt útgerðarfélag í Grímsey frá sér 700 tonna kvóta og annan af tveimur bátum. Það var mikil blóðtaka þó öðrum útgerðum hafi tekist að halda sínu. „Við náttúrulega stöndum og föllum með fiskveiðunum. Það snýst allt um það hérna,“ segir Jóhannes Henningsson, formaður hverfisráðs Grímseyjar.

Unga fólkið flytur í burtu  

Það fækkaði í Grímsey á síðasta ári, en 67 íbúar voru þar með lögheimili 1. janúar. Það eru aðeins fjórir nemendur í grunnskólanum og enginn þeirra yngri en tíu ára. Tvö börn eru þar á leikskólaaldri. “Okkur vantar í rauninni bara að fá til okkar fleira fólk. Jafnvel yngra fólk með fjölskyldur. Okkur vantar það,“ segir Jóhannes. Hann segir mest um að vera í útgerðinn yfir veturinn, því bátarnir haldi gjarnan annað til veiða á sumrin. En þá sé ferðaþjónustan hinsvegar í blóma og sífellt að aukast. En þetta dugi ekki til, unga fólkið flytji í burtu.

Telur að grípa hefði átt fyrr til aðgerða

Gunnar telur að of seint hafi verið gripið til aðgerða og þær séu einfaldlega ekki nógu öflugar. „Þegar Grímsey og Akureyri sameinast þá hefði kannski verið nauðsynlegt að fara strax í aðgerðir, miðað við það hvernig þróunin hefur verið síðan. Og það var kannski ákveðinn lapsus í málinu, að byrja ekki bara strax,“ segir Gunnar.