Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Grilllokið glefsar sem kjaftur út í vindinn

Mynd: Hjálmar / RÚV

Grilllokið glefsar sem kjaftur út í vindinn

19.06.2019 - 14:06

Höfundar

Hjálmar heimsóttu Havarí í Berufirði á hringferð sinni á dögunum. Þar hafa hjónin Berglind Häsler og Svavar Pétur Eysteinsson, sem oft er kenndur við Prins Póló, byggt upp fyrirtaks tónleikastað, gistiheimili og kaffihús. Hjálmar fengu Prinsinn til að segja þeim frá raunum sínum um útigrillið.

Reggísveitin Hjálmar hefur verið á þeysireið um landið síðustu vikurnar og fagna þannig fimmtán ára starfsafmæli sínu með sinni fyrstu hringferð. Aftur á bak kallast tónleikaferðin og hafa þeir þegar þetta er skrifað heimsótt Vestmannaeyjar, Hveragerði, Mosfellsbæ, Hvolsvöll, Seyðisfjörð og Berufjörð. Framundan eru svo tónleikar meðal annars á Akureyri, Siglufirði, Bjarnarfirði á Ströndum og á Vagninum á Flateyri. Nánari upplýsingar um hringferð Hjálma má finna hér.

Á Karlsstöðum í Berufirði hittu þeir fyrir þau Berglindi Häsler og Svavar Pétur Eysteinsson sem reka þar hinu stórmerkilegu menningarstofnun Havarí en þar ræstu Hjálmar af stað hinni árlegu tónleikaröð hjónanna sem kallast Sumar í Havarí síðasta laugardag. Eftir að hafa haldið vel heppnaða tónleika, borðað yfir sig af Bulsum og hjónabandssælu fengu þeir Svavar Pétur til að bregða sér í hlutverk skjólstæðings síns, Prins Póló, og taka með sér nýtt lag úr hans smiðju.

Mynd með færslu
 Mynd: Hjálmar - RÚV
Þrátt fyrir að tónleikaferðalög geti verið lýjandi þá gleyma menn ekki að bursta tennurnar í sveitinni.

„Nei, en ég var sko með hugmynd að lagi sem er búið að óma í hausnum á mér, sérstaklega þegar viðrar illa. Þetta er sem sagt lagið um grillið,“ segir Svavar Pétur þegar Kiddi í Hjálmum játar að hafa óskað eftir nýju lagi frá Prinsinum með mjög skömmum fyrirvara. Svavar var ekki með tilbúið lag til flutnings en náði að grilla eitt ferskt um morguninn.  „Það kannast kannski margir við það að taka grillið út á vorin, nota það svolítið á sumrin ef viðrar vel. Svo fer að hausta og því næst er veturinn brostinn á og grillið er ennþá úti á palli. Svo er veturinn það langt genginn að þú ferð að velta fyrir þér hvort það sé of seint að taka grillið inn, það taki því ekki úr þessu. Þá sérðu hlífina á grillinu skellast í vindinum, vaknar við það á nóttinni þegar það skellur út í garði. Lokið á grillinu, sem er svona eins og kjaftur, glefsar út í vetrargarrann,“ segir Svavar um raunir sínar og grillsins.

Hjálmar ásamt Prins Póló flytja Grillið inn á pallinum við Karlsstaði.

Svavar segist hafa verið uppvís að því einn veturinn að hafa gleymt að taka inn grillið og það hafi legið á honum eins og mara yfir vetrarmánuðina. „Ég tók ekki grillið inn einn veturinn , starði alltaf út um eldhúsgluggann á morgnana, þá sérstaklega í vondu veðri og hummaði þá alltaf þetta lag, svona yfir grillinu. Í gegnum frostbitna rúðuna,“ segir Svavar um lagið en viðkennir þó að textinn hafi ekki verið tilbúinn nema rétt fyrir tökur. „Já, ég var búinn að lofa því að textinn við lagið yrði tilbúinn í morgunsárið og ég vaknaði í morgun og skrifaði textann. Þetta er mögulega fyrsti textinn sem ég hef samið á fastandi kaffimaga og hann ber þess alveg merki,“ segir Svavar.

Í spilaranum hér efst má heyra viðtal Guðmundar Kristins úr Hjálmum við Svavar Pétur Eysteinsson bónda á Karlsstöðum.

Tengdar fréttir

Popptónlist

„Alvöru rokksveitir, þær borða hjónabandssælu“

Tónlist

„Aðflugan á það til að setjast að“

Tónlist

„Ég er hérna svona af og til“

Tónlist

Nýtt vín á gömlum belg frá Júníusi Meyvant