Gríðarstór aðgerð að koma stærsta bátnum upp á Flateyri

29.01.2020 - 11:26
Flateyri Snjóflóð 2020 björgun báta í höfninni. Flateyrarhöfn
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.is
Vonast er til að geta komið stálbátnum Eiði, þeim stærsta sem sökk í höfninni á Flateyri í kjölfar snjóflóðanna þar fyrr í mánuðinum, á land á morgun. Eiður liggur nú á hvolfi í höfninni, en unnið er að því að rétta hann við neðansjávar svo hægt sé að dæla upp úr honum og koma á flot.

Sex bátar fóru í höfninni í snjóflóðunum. Búið er að koma tveimur plastbátum á land, en þeir eru mjög illa farnir. Búið er að koma öðrum tveimur á flot og eru þeir nú bundnir við bryggjuna og komnir í hendur tryggingafélaga. Sjötti báturinn, Orri, var hins vegar ótryggður og situr strandaður í fjörunni. Ekki er vitað hvað verður um hann, að sögn Guðmundar Kristjánssonar hafnarstjóra Ísafjarðarbæjar.

Guðmundur segir að aðgerðir við að reyna að koma Eiði á flot séu mjög umfangsmiklar og krefjist mikils mannafla og tækjakosts. Mikið reyni á kafara, en setja á vír í kjölinn öðru megin og reyna að snúa honum þannig að hann sökkvi niður á botn. Kostnaður fellur á tryggingafélög þar sem þeirra hlutverk sé að ná upp bátunum. Ef allt gengur vel ætti Eiður að vera kominn á réttan kjöl á morgun.

„Svo þegar búið er að eiga við þessa báta þá er næsta verk að koma bryggjunum í samt lag,“ segir Guðmundur, en tvær flotbryggjur slitnuðu í hamförunum. Vonir standa svo til að útgerðin taki við sér á Flateyri í sumar, þar sem handfærabátar eru gjarnir á að koma á sumrin. Hafnaryfirvöld reyni í það minnsta hvað þau geta að halda úti þjónustunni. 

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi