Gríðarlega mikilvægt að allir njóti velmegunar

01.01.2018 - 08:50
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Það er gríðarlega mikilvægt verkefni að sjá til þess að allir fái notið velmegunar á Íslandi, sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í áramótaávarpi sínu. Hún sagði að þó jöfnuður á Íslandi hafi mælst hlutfallslega mikill í alþjóðlegum samanburði væri full ástæða til að gera betur. Til þess þyrfti meðal annars að efla menntakerfið og heilbrigðiskerfið.

„Þegar glímt er við ójöfnuð er mikilvægt að líta til þess hvar ójöfnuðurinn er mestur en á Íslandi er það í eignatekjum,“ sagði Katrín í ávarpi sínu. „Þess vegna er hækkun fjármagnstekjuskatts sem samþykkt var nú fyrir áramót leið til að gera skattbyrðina réttlátari og auka jöfnuð. Þá skiptir máli að taka á skattsvikum og skattaundanskotum og tryggja þannig að allir leggi sitt af mörkum til samfélagsins. Endurskoða þarf samspil bóta- og skattkerfa og tryggja að barnabætur og húsnæðisstuðningur nýtist til að jafna kjörin. Allt skiptir þetta máli til að tryggja félagslegan stöðugleika og jöfnuð sem um leið er undirstaða þess að tryggja sátt í samfélaginu og á vinnumarkaði.“

Katrín lagði líka út af tæknibreytingum fjórðu iðnbyltingarinnar. Hún sagði að gagnvart henni dygði ekkert minna en þverpólitísk framtíðarsýn um hvernig takast eigi á við sívaxandi sjálfvirkni sem færi æ fleiri störf í hendur véla.

„Þar vakna krefjandi spurningar, til dæmis um réttindi manna eftir því sem vélarnar ráða meiru og hvað um öll þau störf sem við sinnum en verður kannski sinnt af vélum. Þarna þurfum við að standa vaktina fyrir mennskuna, fyrir fólkið, og tryggja að tæknin verði okkur til góðs, að hún nýtist til að stytta vinnuvikuna og bæta lífsgæði um leið og öllum verður tryggð mannsæmandi framfærsla,“ sagði forsætisráðherra. Hún sagði að þetta væri hægt en að ákvarðanir og gjörðir nú um mundir gæti skipt máli til að tryggja að þessi framtíð verði björt.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi