Greta Salóme: „Bjóst við að Now myndi vinna“

Svipmyndir frá lokaæfingu, tjaldabaki og keppinni.
---
Photo credit: Pressphotos.biz/Geirix
 Mynd: pressphotos - RÚV

Greta Salóme: „Bjóst við að Now myndi vinna“

21.02.2016 - 11:12

Höfundar

Greta Salóme Stefánsdóttir, sem verður fulltrúi Íslands í Eurovision í Svíþjóð með lagið Hear them calling, segir að sigurinn í gærkvöld hafi komið sér á óvart. „Ég hélt að Now myndi vinna. Það er æðislegt lag og ég er búin að vera með það á heilanum undanfarnar vikur. Ég var eiginlega mest hrædd við að fara syngja það.“ Hún reiknar ekki með að siguratriðinu verði breytt mikið en einhverju verði bætt við.

Hear them calling og Now voru efst og nánast jöfn fyrir einvígið eftir að atkvæði lágu fyrir hjá dómnefndum úr öllum kjördæmum landsins og úr símakosningu. Spennan var því mikil þegar kom að úrslitastundu - hvaða lag yrði fyrir valinu sem framlag Íslands í Eurovision.

Mynd: pressphotos / RÚV

Þetta er í annað sinn sem Greta Salóme tekur þátt í Eurovision. Hún keppti fyrir hönd Íslands í Baku fyrir fjórum árum með laginu Never forget . Hún hefur síðan þá haft í nægu að snúast.  Meðal annars verið með stórsýningu á skipi hjá Disney með eigin tónlist. „Það hefur alveg rosalega mikið gerst á  þeim fjórum árum sem eru liðin frá Baku og ég held að sú reynsla muni hjálpa mér miklu frekar en sjálf reynslan af Eurovision.“

Greta segir að hún sé hugsanlega meira tilbúin núna  fyrir Eurovision en fyrir fjórum árum. „Maður verður sjóaðri með hverjum tónleikum og aðeins meira til í hvað sem er. Ég held að það hafa byrjað snemma sem krakki í tónlistarnámi og að koma fram undirbúi mann samt betur en nokkuð annað. Síðustu árin hefur verið stanslaus keyrsla eins og þetta hjá Disney og öll sú reynsla á eftir að hjálpa mikið.“

Mynd: RÚV / Virkir morgnar

Fiðlan hefur verið eitt helsta einkenni Gretu en hún kemur hvergi við sögu í Hear them calling.  Hún dansar einnig - eitthvað sem hún er ekki vön að gera upp á sviði.  Söngkonan viðurkennir enda að sviðsframkoman, ekkert síður en lagið, hafi verið töluverð ögrun fyrir hana. „Ég fíla að ögra mér og það er skemmtilegt að skapa eitthvað sem er ekkert endilega það sem fólk býst við. Það er alltaf að gaman að koma á óvart,“ segir Greta. 

Hún bætir við að sjálf hún hafi ekkert alveg verið viss um hvort atriðið myndi ganga upp. „En ég er með svo frábært fólk með mér þannig að þetta varð eiginlega bara spurning um hvernig þetta yrði gert í staðinn fyrir hvort.“

Greta segir að þau hafi unnið dag og nótt við útfærsluna á þessu atriði - hún eigi því ekki von á neinum stórkostlegum breytingum þótt einhverju verði alveg pottþétt bætt við. 

Mynd: Söngvakeppnin / RÚV
Mynd: Söngvakeppnin / RÚV