Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Greiðir atkvæði gegn stjórnarflokknum

23.02.2014 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins segist ætla að greiða atkvæði gegn tillögu um að aðildarumsókn Íslands gagnvart Evrópusambandinu verði dregin til baka. Hann segir að fjöldi fólks í flokknum sé sama sinnis.

Vilhjálmur er annar tveggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem var mótfallinn því að þingsályktunartillagan sem dreift var á Alþingi á föstudag yrði lögð fram. Fyrri umræða um tillöguna verður á þinginu á morgun. „Já, ég mun greiða atkvæði gegn þessu vegna þess að ég er á Alþingi til að verja ákveðna hagsmuni og hagsmunirnir heita lífskjör Íslendinga,“ segir Vilhjálmur. 

Aðspurður hvort honum sé vært í þingflokknum með þessa einörðu afstöðu til málsins, segir hann svo vera. „Já, ég tel að ég sé nauðsynlegur í þingflokknum með þessa skoðun vegna þess að það er svo stór hluti af Sjálfstæðismönnum sem er á þessari skoðun.“ Hann hefur þó aldrei íhugað úrsögn úr flokknum.

Hópur Sjálfstæðismanna hefur lýst yfir vonbrigðum yfir því að tillagan sé komin fram. „Ég met þá stöðu á þann veg að ég held að það sé ekki klofningur, en hins vegar er það áhyggjuefni að það er mikið af frjálslyndu fólki sem að hefur skrifað mér og fleirum og sagt að það sé ekki vært í flokknum, en ég bið það fólk um að hugleiða sína stöðu líka,“ segir Vilhjálmur. 

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins svaraði ekki skilaboðum fréttastofu í dag, en í kosningabaráttunni í fyrra lýsti hann og aðrir fulltrúar flokksins því ítrekað yfir að best væri að hætta viðræðum og kjósa um framhaldið. Ragnheiður Elín Árnadóttir var til að mynda fulltrúi flokksins í umræðuþætti RÚV um utanríkismál. Þá sagði hún þetta: „Við viljum að viðræðum verði hætt og þær ekki hafnar að nýju nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Við viljum með öðrum orðum setja það í dóm þjóðarinnar hvort að þessum viðræðum, sem hafa tafist og þetta ferli var rakið hérna, hefur kostað mikla peninga, við viljum setja það í dóm þjóðarinnar á þessu stigi hvort að þeim skuli haldið áfram.“

Vilhjálmur segist hafa nóg um sjálfan sig og vill ekki dæma um svikin loforð. „Ég ætla ekkert að dæma um það hvort einhver hafi svikið loforð. Ég hugsa bara um sjálfan mig, þar sem ég er nú í stórum minnihluta og ég verð sjálfur bara að standa í mínar lappir.“