Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Greiða skólagjöld fyrir karla í hjúkrunarfræði

18.04.2018 - 13:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga ætlar að greiða skólagjöldin fyrir karlmenn sem skrá sig í hjúkrunarfræði í Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri. Guðbjörg Pálsdóttir, formaður FÍH, segir að verkefnið sé einn liður í því að hækka hlutfall karlmanna í stéttinni.

Í samtali við fréttastofu segir Guðbjörg að hlutfall karlmanna í stéttinni sé óvíða lægra en á Íslandi. Aðeins 2% hjúkrunarfræðinga eru karlmenn og segir hún svo lágt hlutfall varla þekkjast annar staðar í heiminum. Hún bendir á að þó standi Ísland almennt framarlega í jafnréttismálum.

Hún segir ekki vitað hvers vegna hlutfall karla hefur ekki hækkað hér líkt og í öðrum löndum. „Það er umhugsunarvert og væri fróðlegt að vita af hverju verður ekki fjölgun á karlmönnum í þessari stétt,“ segir Guðbjörg og bætir við að fyrir því gætu verið margar ástæður.

Verkefnið hefst formlega í haust og stendur yfir í 5 ár. Þeir karlmenn sem ljúka námsárinu og standast prófin geta komið með staðfestingu á því til félagsins og fá þá skrásetningargjaldið endurgreitt.

Þurfa að tryggja fjölbreytileika

Að sögn eru dæmi um það, bæði hér á landi og erlendis, að aðgerðir þar sem beitt er fjárhagslegum hvata til þess að jafna kynjahlutföll í faggreinum hafi borið árangur. „Okkur langar að prófa þetta og sjá hvort það hafi áhrif,“ segir hún.

Þá segir Guðbjörg að félaginu beri að tryggja fjölbreytileika fyrir skjólstæðinga sína. „Hvernig stendur á því, árið 2018, að við skulum vera bara með annað kynið sem sér um að hjúkra fólki? Hvert er félagslega normið hér? Eigum við ekki að endurspegla þá sem við mætum? Við verðum að komast í nútímann.“

Óánægja meðal félagsmanna

Aðspurð segist Guðbjörg hafa heyrt af ónægju félagsmanna með að félagsgjöld þeirra fari í greiðslu skólagjalda karlkyns nemenda. Hún segir að kostnaður við verkefnið verði ekki neinn ef enginn tekur þátt í því. Hún bendir á að félagsgjöldin séu notuð í öll verkefni á vegum FÍH. „Félagsgjöld þeirra sem eru í félaginu eru notuð í allt. Rekstur skrifstofu, málþing, tímarit eða hvað sem það er.“

Sé horft til lengri tíma segir Guðbjörg margrannsakað að þar sem jafnara kynjahlutfall er í fagstéttum séu launakjörin betri. „Jöfnun kynjahlutfalls er einn þáttur sem hefur áhrif á launin en það að breyta kynjahlutfalli tekur mörg ár,“ segir hún að lokum.