Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Greiða miskabætur vegna Hlíðamálsins

18.06.2019 - 12:34
Mynd með færslu
 Mynd: Páll Stefánsson - fb
Hildur Lilliandahl Viggósdóttir og Oddný Arnarsdóttir voru í morgun dæmdar í Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða miskabætur vegna ummæla sem þær létu falla um tvo nafngreinda menn vegna hins svokallaða Hlíðamáls.

Morgunblaðið greindi fyrst frá. Ummælin voru dæmd dauð og ómerk, en þær sökuðu mennina um skipulagðar nauðganir. Oddný er gert að greiða mönnunum 220 þúsund krónur hvorum í skaðabætur og Hildur 150 þúsund.

Mennirnir tveir, sem voru sakaðir um nauðgun í Hlíðamálinu svokallaða, stefndu Hildi fyrir færslu sem hún skrifaði á Facebook og kröfðust þess að hún yrði dæmd til að greiða þeim hvorum um sig 1,5 milljónir. Oddný, sem skipulagði mótmæli við lögreglustöðina á Hverfisgötu eftir að frétt um málið birtist í fjölmiðlum, var krafin um fjórar milljónir.

Árið 2017 var fjórum fréttamönnum 365 gert að greiða mönnunum miskabætur vegna frétta um málið, en á forsíðu blaðsins sagði að íbúð mannanna hefði verið sérútbúin til nauðgana. 

Hlíðamálið vakti mikla athygli á sínum tíma. Tveir menn voru kærðir fyrir að hafa nauðgað konu í íbúð við Miklubraut og annar mannanna var kærður fyrir aðra nauðgun í sömu íbúð.  Bæði málin voru felld niður og mennirnir voru aldrei ákærðir. 

Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, lögmaður kvennanna, segir líklegt að dóminum verði áfrýjað, enda þurfi mikið til, ef skerða á tjáningarrétt almennings, sér í lagi ef sú tjáning er byggð á upplýsingum úr fréttum fjölmiðla.