Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Greiða bætur vegna „misréttis og ranglætis“

11.04.2019 - 12:17
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Íslensk stjórnvöld ætla að greiða fötluðum börnum sem vistuð voru á heimilum sem voru sambærileg Kópavogsahælinu sanngirnisbætur. Forsætisráðherra segir málið snúast um að bæta fólki misrétti og ranglæti sem það varð fyrir af hálfu hins opinbera. Óljóst sé hver kostnaðurinn af greiðslu bótanna verði.

Um 1.200 manns hafa fengið greiddar sanngirnisbætur eftir að hafa sætt illri meðferð á stofnunum eða heimilum á vegum ríkisins undanfarna áratugi. Samkvæmt lögum um bæturnar gátu þó aðeins þeir sem voru vistaðir sem börn, á ákveðnum heimilum, átt rétt á bótum. Lokaskýrslu um uppgjör bótanna var skilað um miðjan desember. Landssamtökin Þroskahjálp hafa lýst miklum vonbrigðum með að stjórnvöld hafi ekki lýst yfir vilja til að rannsaka öll vistheimili þar sem fötluð börn dvöldu, og sömuleiðis þar sem fullorðnir dvöldu, líkt og stjórnvöld eru hvött til að gera í skýrslunni um Kópavogshælið. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu á eftir að skoða að minnsta kosti 20 vistheimili, þar af sex þar sem vitað er að börn hafi dvalið. Þroskahjálp sendi forsætisráðherra bréf í janúar, og því var svarað í gær. Í svari Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra kemur fram að í undirbúningi sé lagafrumvarp um sanngirnisbætur til fatlaðra barna sem vistuð voru á heimilum á vegum hins opinbera. 

Ítarlegt viðtal við Katrínu má sjá í spilaranum hér að ofan.

Langur aðdragandi

„Það er svo að ég svaraði erindi Þroskahjálpar sem mér barst í janúar í gær með bréfi um það að við hyggjumst leggja fram og undirbúa lagafrumvarp um sanngirnisbætur til þeirra fötluðu barna sem voru vistuð á vistheimilum sem voru á vegum hins opinbera,“ segir Katrín. „Hugsunin er sú, og ástæða þess að þetta hefur tekið töluverðan tíma, er að við fórum mjög vandlega yfir erindið. Og það liggur auðvitað fyrir að skýrsla um framkvæmd sanngirnisbóta var gefin út í lok árs, þar er ákveðin umfjöllun það hvort ljúka eigi málum þar eða halda áfram. Og það sama var í skýrslunni um Kópavogshælið á sínum tíma. Og eftir að hafa farið yfir þá umfjöllun teljum við eðlilegt að málin verði skoðuð frekar. Við íhuguðum að fara í nýja rannsókn á málinu en teljum eðlilegra að sú leið verði skoðuð vandlega að sýslumannsembætti verði falið að annast þessa framkvæmd. Og að hún byggi á því að fólk geti þá gert tilkall til sanngirnisbóta hafi það verið á slíkum vistheimilum.“

Hverju á þetta að skila?

„Þetta á auðvitað langan aðdraganda, allt til ársins 2007 þegar farið er af stað í fyrstu málin af þessum toga. Og snýst auðvitað um að það er verið að bæta fólki ákveðið misrétti og ranglæti sem það hefur orðið fyrir af hálfu ríkisins, stjórnvalda, opinberra aðila. Og það er auðvitað hugsunin á bakvið þetta.“

En er ekki líklegt að þetta fólk muni fá fjárhagslegar bætur?

„Jú þetta snýst um það. En hvernig útfærslunni verður nákvæmlega háttað mun ekki liggja fyrir fyrr en við erum búin að ljúka við gerð frumvarpsins.“

Katrín segir að í þessu frumvarpi verði eingöngu horft til fatlaðra barna, en hún vill ekki útiloka að í framtíðinni verði einnig horft til þeirra sem voru vistaðir sem fullorðnir einstaklingar. Þá verði ekki horft til þeirra sem voru vistaðir á einkaheimilum, enda sé það ógjörningur. Katrín segist ekki vita til hversu margra þessar bætur gætu náð, og segist því ekki vita hver kostnaðurinn geti orðið.