Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Greiða atkvæði um vinnustöðvun

01.11.2015 - 12:32
Mynd með færslu
OECD telur framleiðni vera í lagi í áliðnaði. Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Starfsmenn Rio Tinto Alcan í Straumsvík greiða nú atkvæði um hvort boða eigi til vinnustöðvunar frá og með 2. desember, hafi ekki samist fyrir þann tíma í kjaradeilu þeirra við fyrirtækið. Formælandi starfsmanna segir afskipti stjórnenda af deilunni jaðra við brot á vinnulöggjöfinni.

Kjaradeila álvers Rio Tinto Alcan í Straumsvík og starfsmanna þess hefur verið í hörðum hnút mánuðum saman. Megindeiluefnið er, eins og áður, krafa fyrirtækisins um að fá að bjóða fleiri stöðugildi út í verktöku. Þessu hafa starfsmenn hafnað. 

Gylfi Ingvarsson talsmaður starfsmanna segir að viðræður hafa verið komnar af stað um tíma, og það hafi liðkað fyrir þegar allsherjarverkfalli sem átti að hefjast fyrsta september, og sex vikna yfirvinnubanni hafi verið aflétt. Alltaf hafi samt staðið á því að Rio Tinto Alcan héldi kröfu sinni til streitu.

„Og þá í framhaldinu var ekkert um annað að ræða en að funda með starfsmönnum og athuga vilja þeirra til þess að hnykkja betur á til að reyna að fá lausn í þessa alvarlegu deilu,“ segir Gylfi.

Í kjölfarið var ákveðið að hefja atkvæðagreiðslu um vinnustöðvun. Gylfi segir óvæginn áróður rekinn af stjórnendum í Straumsvík. „Það jaðrar við að það sé brot á vinnulöggjöfinni um afskipti af kjaramálum og afstöðu starfsfólks í kjarabaráttu. Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt.“ Þar vísar Gylfi bæði í bréfaskriftir forstjórans til starfsmanna og fundi stjórnenda með hópum starfsmanna til að gera þeim grein fyrir tilboði sínu.

Ólafur Teitur Guðnason upplýsingafulltrúi Rio Tinto Alcan staðfestir að stjórnendur hafi hitt starfsfólk til að kynna hvað fyrirtækið sé að bjóða. Fyrirtækið hafi gert slíkt áður og telji sig hafa fullan rétt til þess. Ástæðan sé sú að stjórnendur hafi orðið varir við misskilning meðal starfsfólks um hvað felist í tilboði þeirra. Hann vekur athygli á að yfirvinnubanninu var aflétt í kjölfar þess að fyrirtækið gerði athugasemd við að ekki hefði verið löglega til þess boðað.

Niðurstaðan í atkvæðagreiðslunni verður kynnt á fimmtudaginn. Ef boðun allherjarverkfalls verður samþykkt hefst það 2. desember, hafi ekki samist. „Það er gjörsamlega óþolandi að eigendur fyrirtækisins erlendis skuli setja kjaramál starfsmanna álversins í algjöra gíslingu í tíu mánuði, þetta er gjörsamlega óþolandi framkoma,“ segir Gylfi.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV