Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Greiða atkvæði um þriðja orkupakkann á morgun

01.09.2019 - 22:05
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Á morgun verða greidd atkvæði um þriðja orkupakkann á Alþingi. Þingfundur hefst klukkan hálf ellefu og búist er við að hann standi lengi. Umræður á Alþingi um orkupakkann hafa staðið yfir í um hundrað og fimmtíu klukkustundir, og eru þær lengstu í sögu þingsins.

Atkvæðagreiðslan á mánudag er hluti af samkomulagi sem formenn flokka á Alþingi komust að við þinglok í vor. Alþingi kom saman á tveimur aukafundum í síðustu viku til þess að klára umræður um orkupakkann. Á morgun verða svo greidd atkvæði um öll málin sem tengjast þriðja orkupakkanum. Þá stendur til að afgreiða þessa Evrópulöggjöf með þingsályktun, þó með fyrirvörum sem slegnir hafa verið um stöðu Íslands.

Flestir sérfræðingar, sem komið hafa fyrir utanríkismálanefnd þingsins, telja að innleiðing orkupakkans leggi ekki þær skyldur á herðar ríkisins að samþykkja sæstreng til útlanda. Andstæðingar orkupakkans óttast að ákvörðun um lagningu sæstrengs verði ekki í höndum ríkisins og að fyrirvarar stjórnvalda dugi ekki til. Þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins eru á móti orkupakkanum og hefur formaður Miðflokksins lýst honum sem hættulegum.

Boðað hefur verið til mótmæla gegn þriðja orkupakkanum á morgun. Fjölmenna eigi þingpalla klukkan hálf ellefu og fylgjast með atkvæðagreiðslunni. Í kjölfarið verður svo mótmælt á Austurvelli, segir í Facebook viðburði mótmælanna.