Greiða atkvæði um stjórnina í dag

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Flokksstofnanir Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar greiða atkvæði síðar í dag og í kvöld um málefnasamning flokkanna. Verði hann samþykktur tekur ný ríkisstjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur við völdum á morgun. Hækkun fjármagnstekjuskatts, lengra fæðingarorlof og uppbygging innviða er meða áherslumála nýrrar ríkisstjórnar. 

Flokksstofnanir flokkanna þriggja koma saman til fundar síðar í dag og í kvöld til þess að afgreiða þann málefnasamning sem formenn flokkanna hafa náð samkomulagi um. Lítið sem ekkert hefur verið gefið upp um innihaldið annað en að það muni koma á óvart og þar muni kveða við nýjan tón.

En þó eru nokkur atriði byrjuð að kvisast út. Má þar nefna að fallið verði frá fyrirætlunum að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu og að gistináttagjald renni beint til sveitarfélaga. Áhersla verði lögð á að bæta afkomu aldraðra og öryrkja og að lengja fæðingarorlof og hækka. Endurskipuleggja eigi fjármálakerfið og gefa út hvítbók og það mun stefnt að því að hækka fjármagnstekjuskatt úr 20 prósentum í 22. Þá á að byggja upp innviði og nota til þess fjármagn úr bönkunum. Þá mun vera stefnt að því að auka útgjöld til heilbrigðismála. Næstum öll þessi mál voru á stefnuskrá flokkanna fyrir kosningarnar í október. 

Langflestir úr röðum væntanlegra stjórnarliða sem fréttastofa hefur náð tali af segja að þeim lítist vel á málefnasamninginn þótt þeir hafi ekki kynnt hann sér í þaula. Formenn flokkanna hafa haldið honum þétt að sér og verður hann ekki kynntur opinberlega fyrr en á morgun. En samþykki flokksstofnanir samninginn í kvöld verður morgundagurinn viðburðaríkur. Þingflokkar koma saman í fyrramálið til að afgreiða ráðherraefni, síðan verður málefnasamningurinn kynntur og formleg stjórnarskipti verða svo eftir hádegi eða síðdegis á Bessastöðum. 

Búist er við að fundir flokksstofnana verði fjölmennir, þeir eru lokaðir fjölmiðlum en við flytjum ykkur fréttir af niðurstöðu þeirra um leið og þær berast. 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi