Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Grásleppuvertíðin fer hægt af stað

29.03.2017 - 14:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - www.smabatar.is
Grásleppuvertíðin fer heldur hægt af stað og færri bátar eru farnir til veiða en á sama tíma í fyrra. Mikill meðafli truflar grásleppuveiðina og þorskur er enn stór hluti aflans.

Það er almennt minni kraftur í grásleppuveiðinni í upphafi vertíðar nú en í fyrra. Þá var reyndar mokveiði og gott veður, en nú gengur þetta heldur verr.

Leiðindaveður í byrjun og meðafli að angra menn

Drangsnes er einn af öflugustu útgerðarstöðum landsins á grásleppuvertíðinni og Óskar Torfason, rekur þar fiskvinnsluna Drang. „Það byrjaði nú með leiðindaveðri eftir að menn lögðu fyrst og veiðin virðist vera minni og meðafli eitthvað sem er að angra menn líka. En þetta er samt allt í rétta átt og við vonumst til að þetta hressist núna þegar veðrið lagast og líður aðeins á tímann.“

Líklegt að grásleppubátum fjölgi smám saman

Níu bátar eru byrjaðir á grásleppu frá Drangsnesi en Óskar á von á að þeim fjölgi í 16 til 18 þegar kemur fram yfir mánaðarmót. Eins og fram hefur komið hófu færri bátar veiðar nú en í fyrra og hafði lágt verð fyrir grásleppuna þar mest að segja. Verðið hefur nú mjakast upp á við og líklegt að bátum fari smám saman fjölgandi.

Skiptir miklu máli að vertíðin gangi vel

Grásleppan skiptir miklu máli á mörgum smærri stöðum, eins og á Drangsnesi. Á vertíðinni koma þangað margir aðkomubátar og landa grásleppu til vinnslu og Óskar segir þetta halda samfélaginu gangandi á þessum árstíma. „Á þessum tíma fjölgar um helming hérna í frystihúsinu og bátunum sem eru að róa náttúrulega líka. Yfir veturinn eru kannski bara fjórir bátar, svo þrefaldast það eða meira,“ segir Óskar.