Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gráskalinn alveg nógu flókinn

Mynd: Rúv mynd / Rúv myndir

Gráskalinn alveg nógu flókinn

15.11.2018 - 10:24

Höfundar

Gráir tónar og ofurdaufir litir og blæbrigði einkenna verk Ingólfs Arnarsonar sem nú sýnir í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur. „Mér finnst grátónninn svo áhugaverður af því að hann er einhvern veginn á milli, hvorki né, bæði og,“ segir listamaðurinn.

Ingólfur sýnir verk sín í A-sal Hafnarhússins á jarðhæð og kallar sýninguna einmitt það, Jarðhæð. Þar tekur hann mið af arkitektúr salarins með sínu steinsteypta lofti og súlum. „Það er svolítið kvartað yfir því að hann sé þungur þessi salur. Mig langaði að draga fram þessi einkenni hans og vinna með þau,“ segir Ingólfur og það verður að segjast að þetta tekst því að með sínum hljóðlátu verkum tekst myndlistarmanninum líka að draga athyglina að rýminu sem verk. Jafnvel súlurnar verða eins og þátttakendur í sýningunni.

Býr til ryþma

Ingólfur bendir á að Hafnarhúsið sé um margt merkilegt í byggingarsögunni. „Það er hannað af Sigurði Guðmundssyni sem var frumkvöðull í módernískum arkitektúr og síðar endurbætt og breytt í sýningarhúsnæði af Studio Granda sem unnu gott verk. Þannig að mér finnst gaman að kalla á þennan arkitektúr.“

Listamaðurinn segir að þarna sé nánast hægt að tala um tvær sýningar, saman í einni. Annars vegar teflir hann fram málverkum á litlum steinsteypuklumpum sem kallast á við súlurnar í salnum. Málverkin á þeim eru við fyrstu sýn hvít og grá, en við mjög nána skoðun koma örlitlir litatónar í ljós í þeim. „Síðan er ég hér með teikningar sem eru ýmist stakar í rýminu eða nánast eins og „trillur“ ef maður notar líkingamál úr tónlistinni. Þannig myndast einhver ryþmi í salnum. Saman myndar þetta línulega frásögn sem endar í gluggunum sem vísa út að götu. Þar er umferð sem líka kemur inn í þetta og ég hafði ekki alveg gert mér grein fyrir,“ segir Ingólfur og brosir.

Hvorki né

Verk Ingólfs láta ekki mikið fara fyrir sér. Fínlegar línur í teikningum hans lifna við ef áhorfandinn er tilbúinn að skerpa á athyglinni og grátóninn er áberandi, þó að litir leynist líka í sýningunni. „Mér finnst grátónninn svo áhugaverður af því að hann er einhvern veginn á milli, hvorki né, bæði og. Þú getur sveiflast örlítið til innan þess skala og gert svo mikið. Þetta er alveg nóg viðfangsefni og alveg nógu flókið,“ segir Ingólfur.

Hér fyrir ofan má heyra ítarlegt viðtal við Ingólf um sýninguna Jarðhæð og verkin í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur. Viðtalið er úr Víðsjá á Rás 1 en tónlistin í innslaginu er úr smiðju Mats Eilertsen.