Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Grænn fótbolti

20.06.2016 - 16:12
Mynd: EPA / EPA FILE
Umhverfismál á EM í fótbolta eru umfjöllunarefni Stefáns Gíslasonar í pistli dagsins.

 

Eins og flestir hafa líklega tekið eftir stendur Evrópumótið í fótbolta yfir í Frakklandi þessa dagana. Og þó að fótboltinn sé auðvitað í aðalhlutverki og þó að athygli manna beinist eðli málsins samkvæmt fyrst og fremst að einstökum leikjum, úrslitum þeirra, stöðu liða í riðlakeppninni og mögulegri atburðarás á þeim vettvangi næstu daga, þá hafa mótshaldarar haft í mörg fleiri horn að líta. Eitt þessara horna er umhverfishornið, sem gert verður að umtalsefni í þessum pistli.

 

Allir íþróttaviðburðir hafa einhver áhrif á umhverfið, bæði staðbundin áhrif á þeim svæðum þar sem viðburðirnir eru haldnir og hnattræn áhrif sem bitna jafnt á réttlátum og ranglátum um allan heim, óháð áhuga þeirra á viðkomandi íþrótt. Langstærstur hluti þessara áhrifa stafar annars vegar af uppbyggingu og viðhaldi mannvirkja og hins vegar af ferðalögum fólks sem sækir þessa viðburði, hvort sem um er að ræða íþróttamennina sjálfa, stjórnendur, starfsmenn eða áhorfendur. Í þessum efnum vega þó áhorfendurnir þyngst, einfaldlega vegna þess að þeir eru flestir.

 

Þegar tiltækar upplýsingar um umhverfismál í tengslum við Evrópumótið í fótbolta eru skoðaðar, verður ekki annað séð en Knattspyrnusamband Evrópu og aðrir þeir aðilar sem að mótinu standa hafi virkilega lagt sig fram um að halda neikvæðum áhrifum á umhverfið í lágmarki. Þessi viðleitni snýst ekki bara um umhverfið í þröngum skilningi þess orðs, því að þarna hefur líka verið lögð áhersla á að viðburðurinn hafi sem minnst neikvæð og sem mest jákvæð áhrif á samfélag og efnahag. Mótshaldarar hafa með öðrum orðum lagt sig fram um að hafa hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi við undirbúning og framkvæmd mótsins. Engin leið er að gefa tæmandi yfirlit í stuttum útvarpspistli yfir aðgerðir mótshaldara í þessa veru, og því verður látið nægja að nefna nokkur áhugaverð dæmi.

 

Eins og fram hefur komið skipta ferðir áhorfenda meira máli en flest annað þegar umhverfismál Evrópumótsins eru skoðuð. Erfitt er að sjá fyrir sér heilt Evrópumót án áhorfenda og því skiptir meginmáli hvernig fólk ferðast á mótsstað. Í aðdraganda mótsins lét Knattspyrnusamband Evrópu útbúa sérstaka reiknivél til að auðvelda fólki að komast á staðinn með sem minnstum neikvæðum áhrifum á umhverfið og fræðast um leið um það hversu mikill koltvísýringur muni losna í ferðinni. Þeir sem hugðu á ferðalög af þessu tilefni gátu tengst reiknivélinni á síðunni en-ecocalculator.uefa.com og slegið þar inn brottfararstað, ferðamáta og viðeigandi borg í Frakklandi. Þetta er auðvitað enn hægt að gera, t.d. ef maður er að hugsa um að sjá Ísland spila við Austurríki í París á miðvikudaginn. Sé Borgarnes valið sem upphafsstaður ferðalagsins og gert ráð fyrir að flugvél verði fyrir valinu kemur í ljós að heildarlosun koltvísýrings í ferðinni myndi verða 1,32 tonn, sem myndi duga til að fylla nákvæmlega 78.338 fótbolta af þessari margumtöluðu gróðurhúsalofttegund. Til að bæta fyrir þessa losun gefst Borgnesingnum sem í hlut á kostur á að láta 13 evrur og 20 sent, eða sem svarar til rúmlega 1.800 íslenskra króna renna til sérstaks vindorkuverkefnis í Nýju-Kaledóníu, en þetta verkefni á að geta dregið úr losun um samtals 32.000 tonn á ári.

 

Helstu áherslur mótshaldara í Frakklandi í umhverfis- og samfélagsmálum voru dregnar saman í bæklingi sem út kom á síðasta ári undir yfirskriftinni EURO 2016 – Social Responsibility & Sustainability. One-year-to-go report, eða Evrópumótið 2016 – Samfélagsábyrgð og sjálfbærni. Eitt ár til stefnu, eins og ritið gæti heitið í íslenskri þýðingu. Í ritinu eru sett fram markmið og kynntar aðgerðaáætlanir fyrir tiltekin átta forgangsatriði. Þessi átta atriði eru:

 

Í fyrsta lagi aðgengi fyrir alla, í öðru lagi tóbakslaus viðburður, í þriðja lagi eftirlit með hvers konar mismunun, í fjórða lagi góð aðstaða fyrir stuðningsmenn, í fimmta lagi almenningssamgöngur og ferðalög, í sjötta lagi úrgangsstjórnun, í sjöunda lagi góð nýting á orku og vatni og í áttunda lagi innkaup á vörum og þjónustu. Hverju forgangsatriði fylgja 1-3 markmið og 3-6 aðgerðir. Sé úrgangsstjórnunin tekin sem dæmi settu mótshaldarar sér þar þau markmið að ná 50% endurvinnsluhlutfalli, senda engan úrgang í urðun og auka vitund meðal almennings. Þegar ár var til stefnu var búið að dreifa sérstökum leiðbeiningum um úrgang, taka saman lista yfir aðgerðir á hverjum leikvangi um sig og koma á samstarfi við birgja um flokkunarlausnir, um nýtingu margnota drykkjaríláta og um að gefa afganga. Þá var einnig búið að halda sérstaka málstofu eða námskeið fyrir rekstraraðila matsölustaða. Eftir var að ganga endanlega frá málum varðandi drykkjarílátin og negla niður fyrirkomulag í flokkun og meðhöndlun úrgangs á leikvöngum og áhorfendasvæðum.

 

Ýmis fleiri dæmi er hægt að nefna um viðleitni mótshaldara til að gera Evrópumótið eins sjálfbært og mögulegt er. Þeir hafa til dæmis gefið út auðlesinn bækling fyrir starfsmenn og alla aðra sem áhuga hafa, í þeim tilgangi að auka vitund fólks um sjálfbæra þróun og hjálpa því að spara tíma, draga úr útgjöldum og auka eigin velferð. Auk ýmissa þátta sem snúa að mótshaldinu sjálfu er fólki þar t.d. ráðlagt að stunda líkamsrækt í a.m.k. 20 mínútur á dag í virðingarskyni við eigin heilsu. Í þessum bæklingi er líka kynntur til leiks ráðgjafinn Súper-Victor sem gefur fólki góð ráð um það helsta sem máli skiptir fyrir sjálfbærni Evrópumótsins, eigin vellíðan og velferð annarra. Þá hafa mótshaldarar líka gefið út sérstakt rit um umhverfislega frammistöðu gististaða sem samið var við í tengslum við Evrópumótið, en sú útgáfa er liður í umfangsmiklu samstarfi við birgja til að reyna að fá þá til að leggja sitt af mörkum í þágu umhverfis og samfélags. Mótshaldarar sömdu við samtals 765 aðila um gistingar í tengslum við Evrópumótið og samkvæmt nýlegri úttekt hefur mikill meirihluti þessara aðila gripið til aðgerða til að bæta umhverfislega og samfélagslega frammistöðu sína í samræmi við kröfur mótshaldara. Því er ljóst að áherslan á sjálfbærni nær langt út fyrir knattspyrnuvellina og skrifstofur Knattspyrnusambands Evrópu.

 

Til viðbótar því sem hér hefur verið talið upp má nefna að Knattspyrnusamband Evrópu sótti um vottun fyrir Evrópumótið samkvæmt staðlinum ISO 20121 fyrir sjálfbæra viðburði. Úttekt samkvæmt staðlinum fer fram á meðan á mótinu stendur og í lok þess kemur í ljós hvort mótshaldið hafi staðist þær kröfur sem staðallinn gerir. Í haust kemur svo út ítarleg sjálfbærniskýrsla, sem m.a. á að uppfylla kröfur GRI (Global Reporting Initiative) sem sett hefur sérstakar reglur um skráningu umhverfisþátta og birtingu þeirra í grænu bókhaldi. Hlustendur Rásar 1 bíða væntanlega spenntir eftir þessari skýrslu, því að þá kemur fyrst almennilega í ljós hversu umhverfisvænt Evrópumótið var þegar allt kom til alls.

 

 

leifurh's picture
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður